Svava Kristín Grétarsdóttir íþróttafréttakona á Sýn var í viðtali í Ísland í dag á mánudag. Þar sagði Svava Kristín frá ferlinu við að verða ófrísk og samskiptum sínum við Livio, en hún gagnrýndi fyrirtækið fyrir samskiptaleysi og fleira.
Í færslu á Facebook í gær segist Svava Kristín þakklát fyrir öll skilaboð sem hún hefur fengið eftir viðtalið. Og skrifar framhald á sinni sögu, en hún segir alls ekki hafa verið hægt að koma sögunni allri að í stuttu innslagi í Ísland í dag.
„Það er svo sorglegt að sjá hversu margir hafa upplifað það sama og ég hjá Livio. Auðvelda leiðin fyrir mig hefði klárlega verið að segja nei við þessu viðtali, enda orðin ólétt og tilbúin að snúa baki við þessu og horfa fram á við. Enn í gegnum þetta ferli hef ég heyrt svo margar sögur af slæmri upplifun skjólstæðinga Livio svo mér fannst ég þurfa að nýta mína rödd til þess að segja okkar sögu, opna á umræðuna og vonast eftir því að einhverjar breytingar verði innan veggja Livio. Því að þegar að uppi er staðið þá er stórkostlegt að við Íslendingar getum sótt þessa aðstoð hér á landi, það er því sorglegt að þurfa að mæla með því við alla að leita beint erlendis,“ segir Svava Kristín.
Fékk svar samdægurs frá stofu á Spáni
Hún tekur fram að saga hennar sé alls ekki hræðileg miðað við marga aðra sem hafa reynt í mörg ár, jafnvel áratug að eignast barn. Hún hafi þó á þessum tveimur árum sem hún var í ferlinu að verða ófrísk með aðstoð Livio upplifað hvað þjónustan og framkoma starfsfólksins er slæm og hversu mikil þörf er á samkeppni hér heima.
„Allar þessar lokanir, páska, sumar og jólalokanir. Þetta eru 3-4 tíðarhringir á einu ári. Fyrir utan alla íslenska frídaga, það er eins gott að fá ekki egglos á sumardaginn fyrsta, já eða um helgi, þá er lokað hjá Livio. Við getum stýrt því hvenær við viljum fara í plokkun og litun, við getum ekki stýrt því hvenær við fáum egglos.“
Til samanburðar við þjónustu Livio, en Svava Kristin greindi frá því í viðtalinu að hún hefði þurft að bíða fjóra mánuði eftir fyrsta viðtalstímanum þar, segist hún hafa haft samband við stofu í Alicante á Spáni:
„Þar sem að ég fékk svar samdægurs og mér boðinn tími tveimur dögum síðar. Ég fór til þeirra einhverjum vikum síðar enda á Íslandi þegar ég hafði samband. Einnig bjóst ég við langri bið eftir fyrsta tíma, þekkti ekkert annað. En ég fékk samband við starfsmann sem fylgdi mér í gegnum öll samskipti og hitti mig daginn sem ég kom út og var með mér allan daginn. Þar voru allar rannsóknir gerðar og mér tjáð að ég yrði undir eftirliti í kringum egglos, ég þyrfti að sprauta mig og ég yrði ómuð daglega til að vita hvenær uppsetning á tæknifrjóvgun yrði gerð. Hér heima á ég að hringja í ritara og láta vita ef ég fæ broskall á egglos próf, og VONANDI verður hægt að koma mér að samdægurs eða daginn eftir, EF þetta er á virkum degi. Annars kem ég bara í næsta hring. Eins og það sé ekkert mál fyrir okkur að bíða alltaf bara í mánuð í viðbót!,“ segir Svava Kristín.
Hún segir að starfsfólk Livio hafi ítrekað reynt að draga úr vilja hennar til að prófa barnseignaferlið erlendis þegar hún kom með þá tillögu: „Þú heyrir bara góðu sögurnar“ „Ekki trúa öllu sem að þú heyrir“.
„Þetta er svo augljós mynd af eiginhagsmunasemi. Ef einbeittur vilji þeirra væri að ég yrði ólétt, af hverju ekki að taka þá þátt í umræðunni með mér og meta það hvort það gæti hentað mér betur að leita til annarra aðila?“
Ekki kvarta yfir álagi við viðskiptavinina
Svava Kristín biðlar til starfsfólk Livio að kvarta ekki við viðskiptavini þeirra yfir álagi vinnunnar. „Gerið það heima hjá ykkur við fjölskyldu og vini. Þið vinnið skrifstofuvinnu, í fríi um helgar, á íslenskum frídögum, páskum, sumrin og jólin. Við sem erum í meðferð hjá ykkur erum aldrei í fríi, fyrr en að við sjáum jákvætt óléttupróf. Það eru langir biðlistar, ykkur er velkomið að lengja opnunartíma og stytta biðlistana. Þið megið einnig sýna meiri skilning í samskiptum ykkar við þá brotnu einstaklinga sem eru á hinni línunni,“ segir Svava Kristín og nefnir nokkur dæmi:
„Ég hringi inn þar sem að egglos prófið mitt kom ekki rétt út, það er að segja það kom ekki broskall á tækið, en ég sá tvær línur og fann að ég var með egglos. „Haha ha? Fannstu að þú værir með egglos? Konur finna ekki fyrir egglosi svo það getur ekki verið“ – Konur finna ekki fyrir egglosi? Hver getur alhæft það, ekki hlæja að mér, það er vel hægt að finna út egglos án þess að eiga Clearblue egglos próf sem sýnir broskall. Þarna missti ég af einni meðferð og þurfti að bíða í mánuð.“
„Heyrðu þú kemst ekki í uppsetningu núna, það er brjálað að gera hjá okkur í dag og svo er auðvitað lokað á morgun, Sumardagurinn fyrsti, pældu í því það er bara að koma sumar.“ „Ég er ekki svona hamingjusöm yfir því að það sé að koma sumar þegar að þú tilkynnir mér að ég þurfi að bíða annan mánuð. Ekki reyna að vera rosa hress í símann og vonast eftir því að það bæti slæmu fréttirnar sem þú ert að færa mér.“
„Ég hef heyrt að það hjálpi til að taka inn hjartamagnýl?“ (kvensjúkdómalæknir, ljósmóðir og vinkona í sömu stöðu búnar að benda mér á það) Svarið sem ég fékk: „haha elskan mín, nei nei en ef þú heldur að það hjálpi þér eitthvað þá máttu alveg taka það inn en það gerir ekki neitt“ Aftur, ekki hlæja að mér og gera lítið úr mínum spurningum þegar að ég er tilbúin að gera ALLT til þess að næsta meðferð gangi upp.“
„Hvað getur mögulega verið að hjá mér, nú er ég búin að reyna þetta oft og ekkert gerist?“ – svar: „Tja þú hefur nú ekki reynt það oft, þetta eru hvað 6-7 skipti.“ Númer 1, ef mér finnst það oft, þá bara tekur þú undir það. Annað, þótt ég sé búin að koma til ykkar í 6-7 skipti, þá eru kannski 4-5 skipti sem ég komst ekki af því að það var lokað hjá ykkur. Ég er búin að reyna frá því að ég kom hingað inn fyrst!“
Ekki láta ritarann slengja slæmum fréttum á viðskiptavininn
Að lokum ítrekar Svava Kristín það sem hún sagði í viðtalinu í Ísland í dag: „Þegar að ég hringi inn til að staðfesta tímann minn í uppsetningu á fósturvísi. Ef að það stendur í kerfinu að engin uppsetning sé hjá þessum viðskiptavini, ekki þú sem ritari tilkynna viðkomandi þessar hræðilegu fréttir. Þetta er það allra versta sem þú heyrir, þú vilt vera í öruggu umhverfi þegar þessar fréttir berast, þú vilt geta spurt spurninga og fá svör við þeim. Í mínu tilfelli fékk ég þessi skilaboð á bílaplani og starfsmaðurinn sagði „Ég veit ekkert, það stendur bara að eggin séu ekki í lagi svo það er engin uppsetning hjá þér“ Þarna hefði ég viljað heyra: „Ég sé enga breytingu á tímanum hjá þér á morgun, ég skal bara kanna þetta betur og við heyrum í þér á eftir.“ Þarna getur starfsmaðurinn fengið viðeigandi starfsmann til þess að heyra í mér.“
Svava Kristín segir að hún geri sér grein fyrir að starfsfólkið
„..eru manneskjur sem telja sig vera að gera vel í sínu starfi og þetta eru góðar manneskjur, ég veit það vel. Áminning á að gera betur í vinnu er bara nauðsynleg. Vonandi skilar þetta sér til réttra aðila sem til sín taka og ég hef fulla trú á því að allir starfsmenn sem svara í símann hjá Livio taki þetta til sín og vilji gera betur.“
Snorri Einarsson, yfirlæknir Livio, svaraði fyrir gagnrýni Svövu Kristínar í fréttum Stöðvar 2 í gær. Hann sagðist harma þá neikvæðu upplifun sem sumir viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu gengið í gegnum fyrirtækið hefði þegar tekið á ýmsum hlutum sem komu fram í viðtalinu við Svövu Kristínu.
„Það sem okkur fannst mjög leiðinlegt, er að þarna koma fram ákveðnin samskiptamál sem betur hefðu mátt fara. Auðvitað viljum við að þau séu miklu betri, og við notum svona ábendingar, og viljum nota þær sem hvata til að vinna í þessu,“ sagði Snorri.
Hann benti á að það væri eðli slíkra meðferða að það væri ekki öruggt að þær gengju upp sem væri sár reynsla. Sér þætti afar leitt að ekki hafi tekist að láta konum líða betur undir slíkum kringumstæðum.
„Og það er okkar einlægi vilji að gera betur,“ sagði Snorri.