Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson má ekki slá eign sinni á orðið „flugbætur“ samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar sem féll í júlí.
Ómar, eða öllu heldur lögmannsstofan hans, Lögmannsstofan Valdimarsson, sótti um skráningu á vörumerkinu FLUGBÆTUR til að auðkenna tiltekna þjónustu. Umsóknin var lögð fram í september árið 2019. Hugverkastofan synjaði umsókninni hvað varðaði tiltekna þjónustu. Hafði Ómar farið fram á að merkið auðkenndi: Lögfræðiþjónustu, farangursskoðun í öryggisskyni, gerðardómsþjónustu, höfundarréttarþjónustu, leyfismiðlun fyrir hugverkaréttindi, leyfismiðlun fyrir tölvuhugbúnað [lögfræðiþjónusta]. Taldi Hugverkastofan að merkið skorti sérkenni og aðgreiningarhæfni og vantaði upp á að það væri lýsandi hvað varðaði tegund, notkun og eiginleika framangreindrar þjónustu, en orðrétt sagði í ákvörðun Hugverkastofunnar:
„Orðið í merkinu, FLUGBÆTUR, vísar að mati stofunnar beint til þeirrar þjónustu sem því er ætlað að standa fyrir, þ.e. að reka bótamál/sækja bætur í tengslum við flugsamgöngur, til að mynda vegna aflýsingar á flugi. Það er talið andstætt tilgangi vörumerkjalaga að með skráningu merkis geti einstakir aðilar helgað sér orð sem algeng eru í daglegu lífi og/eða allir á viðkomandi viðskiptasviði geta haft þörf á að nota. Því er það mat hugverkstofunnar að orðmerkið FLUGBÆTUR teljist lýsandi fyrir m.a. lögfræðiþjónustu og þjónustu sem tengist flugrekstri.“
Þessari niðurstöðu vildi Ómar ekki una og bar því við að lögmannsstofan hans ætti að baki langa og óslitna notkun á merkinu. Hann hafi árið 2017 skráð lénin flugbaetur.is og flugbætur.is, stofnað Facebook reikning fyrir Flugbætur.is og sett í loftið vefsíðu þar sem flugfarþegum hafi í fyrsta sinn gefist færi á að kaupa aðstoð íslenskra lögmanna við að sækja bætur til flugfélaga. Ef leitað væri að orðinu á Google væru fyrstu niðurstöður áðurnefndar vefsíður og hafi fjölmiðlar eins birt viðtöl við Ómar, fréttir og umfjöllun um þjónustu sem byggði á orðinu.
Því væri ekki vafi um að Ómar væri höfundur þessa vörumerkis og hefði notað það árum saman. Áður hafi notkun þess ekki verið til í íslenskri tungu en engar niðurstöður birtust ef leitað væri eftir orðinu á timarit.is, það væri ekki í orðabók né gagnasöfnun Orðabókar Háskólans og merkið hefði ekki öðlast almenna merkingu fyrir umrædda þjónustu og væri ekki lýsandi fyrir þá þjónustu sem sótt væri um – þó í því gæti falist vísbending. Lokaritgerð á sviði lögfræði sem kom út árið 2014 um bótarétt flugfarþega hafi ekki notað orðið og því ættu öll skilyrði fyrir skráningu vörumerkis að vera fyrir hendi.
Hugverkastofa ákvað þá að falla frá því að synja um skráningu á vörumerkinu hvað varði hluta þess sem Ómar fór fram á – nánar tiltekið hvað varðar höfundarréttarþjónustu, leyfismiðlun fyrir hugverkaréttindi og leyfismiðlun fyrir tölvubúnað. En eftir sem áður mætti Ómar ekki tileinka sér orðið hvað varði lögfræðiþjónustu, farangursskoðun í öryggisskyni og gerðardómsþjónustu. Orðið eins og það er vísi beint til þjónustu af þessu tagi – þ.e.a ð reka bótamál eða sækja bætur í tengslum við flugsamgöngur. Orðið væri samsett af tveimur orðum sem hafa þekkta merkingu í tengslum við þá þjónustu – flug og bætur. Það væri aðeins minniháttarbreyting að skeyta þeim saman í eitt orð. Evrópudómstóllinn hafi ítrekað staðfest að það nægði almennt ekki til að setja saman orð sem hvert um sig væri lýsandi eða almennt til að mynda þannig nýyrði og fá það skráð sem vörumerki.
Aftur freistaði Ómar þess að fá orðið skráð sem vörumerki hvað þá þjónustu sem eftir stóð varðaði. Í rökstuðningi sínum hafði Ómar borið því við að þar sem hann væri höfundur orðsins væru miklir hagsmunir í húfi að hann gæti hindrað aðra frá því að nota það. Þá kom málið fyrir áfrýjunarnefnd . Áfrýjunarnefnd staðfesti niðurstöðu Hugverkastofunnar og vísaði til þess að orðið flugbætur vísaði til endurgjalds fyrir tjón sem hafi orðið í flugferð eða í tengslum við flugsamgöngur og gæti ekki talist lýsandi fyrir þá þjónustu sem Ómar bjóði upp á. Taldi áfrýjunarnefnd gögn máls staðfesta að orðið megi rekja til starfsemi Ómars, eða að hann hafi fyrstur notað það, en aðeins um tveggja ára bil. Hann gæti því ekki borið því við að til vörumerkjaréttar hafi stofnast.