VR hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna óánægju með söluferli á hlut ríkisins í bankanum sem hefur verið mikið til umfjöllunar á árinu. Tillaga um þetta var samþykkt á stjórnarfundi VR í vikunni en tilkynning um málið er eftirfarandi:
„Stjórn VR hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka og leita tilboða í viðskipti félagsins og þjónustu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.
Eins og fram kom í yfirlýsingu stjórnar VR frá 29. júní síðastliðinn telur félagið brot Íslandsbanka við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í bankanum með öllu óásættanleg. VR kallaði eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð ber á lögbrotum axli þá ábyrgð. Viðbrögð Íslandsbanka og svör forsvarsmanna hans við kröfum félagsins eru að mati stjórnar VR ófullnægjandi.
Tillaga um að slíta viðskiptum við Íslandsbanka var samþykkt af stjórn VR á fundi þann 16. ágúst 2023.“