Michael Oher, fyrrum atvinnumaður í bandarísku NFL-deildinni, hefur kært hjónin Sean og Leigh Anne Thuhoy fyrir að hafa platað sig til að afsala sér fjárráð sín í hendur þeirra.
Margir þekkja eflaust sögu Oher af hvíta tjaldinu en hún var innblástur að bókinni The Blind Side og síðar samnefndri kvikmynd sem sló rækilega í gegn og landaði meðal annars Sandra Bullock Óskarsverðlaununum eftirsóttu fyrir hlutverk sitt sem Leigh Anne í myndinni.
Í stuttu máli fjallaði bókin um hvernig að hin góðhjartaða Thuhoy-fjölskylda, og þá sérstaklega Leigh Anne, tók að sér hinn unga Oher sem flakkaði á milli fósturfjölskyldna og hjálpaði honum til þess að verða atvinnumaður í íþrótt sinni þar sem hann landaði meðal annars Ofurskálinni ásamt liðsfélögum sínum í Baltimore Ravens árið 2013.
Sagan var á þá leið að hjónin hafi ættleitt Oher en í málsókninni heldur hann því fram að það hafi verið blekking. Hann hafi aðeins afsalað sér fjárráðum sínum til hjónanna sem þau hafi svo nýtt sér til þess að hagnast ævintýralega, fyrir sig og tvö líffræðileg börn sín, á sögunni sem heillaði heimsbyggðina. Kvikmyndin The Blind Side sló rækilega í gegn og halaði inn rúmlega 300 milljónum dollara, um fjörtíu milljörðum króna, en kostaði aðeins tæplega 30 milljónir dollara í framleiðslu.
Í kærunni er fullyrt að hjónin hafi stofnaði vörslusjóð sem þau hafi nýtt til að hagnast á ferli og nafni Oher og fer hann fram á að sjóðurinn verði leystur upp og að hjónunum verði meinað að nota nafn hans og sögu til þess að afla sér tekna í framtíðinni. Kemur ennfremur fram í málsskjölum að Oher hafi komist að því í febrúar á þessu ári að hann tengdist Thuhoy-fjölskyldunni engum fjölskylduböndum sem hafi verið mikið áfall.
Í fréttum erlendra miðla kemur fram að Thuhoy-fjölskyldan neiti staðfastlega sök í málinu og að þau séu miður sín vegna þess. Lögfræðingar þeirra hafa fullyrt að Oher sé sá sem hafi rangt við en hann hafi ítrekað hótað hjónunum að stíga fram með neikvæða sögu sem myndi skaða þá ef að þau myndu ekki greiða honum 15 milljónir króna, tæplega tvo milljarða króna.
Þá segjast hjónin ennfremur hafa deilt ágóðanum af vinsældum The Blind Side með „syni sínum“ og hafi haldið áfram að greiða hans hluta inn á vörslusjóðinn þrátt fyrir hótanir hans.
Þá hafa lögfræðingar þeirra einnig beint á að Thuhoy-hjónin hafi ekki haft neina ástæðu til þess að snuða Oher um sinn skerf af peningunum enda sé um að ræða lítinn hluta af gríðarlegum auðæfum sem þau hafi byggt upp með rekstri skyndibitastaða, meðal annars Taco Bell og KFC, í Bandaríkjunum.