fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Norskur ráðherra í vondum málum

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 21. júlí 2023 12:00

Ola Borten Moe/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í fréttum norska ríkisútvarpsins kemur nú í morgun fram  að Ola Borten Moe ráðherra vísindarannsókna og háskólamála í ríkisstjórn Noregs hafi viðurkennt að hafa brotið siðareglur ríkisstjórnarinnar. Moe, sem kemur úr Miðflokknum (n. Senterpartiet), keypti hlutabréf að andvirði um 400.000 norskra króna ( um 5,2 milljónir íslenskra króna) í vopnaframleiðslufyrirtækinu Kongsberg Gruppen og segist einnig hafa gerst brotlegur við reglur ríkisstjórnarinnar um hlutabréfaviðskipti.

Brot ráðherrans á siðareglum ríkisstjórnarinnar fólust í því að viku eftir að hann heypti hlutabréfin í Kongsberg sótti hann fund á vegum ríkisstjórnarinnar sem varðaði samning norska ríkisins við annan vopnaframleiðanda, Nammo, en Kongsberg á með óbeinum hætti fjórðungshlut í Nammo. Hann braut einnig reglurnar þegar hann sat annan fund sem snerist um útvíkkun samnings norska ríkisins og Nammo.

Ráðherrann viðurkennir að brot hans séu alvarleg og séu til þess fallin að draga heilindi hans í efa og ríkisstjórnarinnar allrar um leið. Lögð er áhersla á það í Noregi að hlutabréfakaup ráðherra ríkisstjórnarinnar verði ekki til þess að draga úr trausti á viðkomandi ráðherra, ríkisstjórnina alla eða ráðuneyti Noregs.

Moe segist vilja halda áfram sem ráðherra en það geti hann ekki nema það sé skýrt að hann njóti trausts.

Ráðherrann segist hafa keypt hlutabréf í fleiri fyrirtækjum en hann telji nú ljóst að það sé nánast ómögulegt fyrir ráðherra að kaupa hlutabréf í einstaka fyrirtækjum. Það sé ástæða fyrir því að reglur um hlutabréfaviðskipti ráðherra séu til staðar og hann hafi brotið þær. Hann segist nú hafa selt hlutabréfin í Kongsberg og telur að hann hafi ekki grætt neina fjármuni á þeim.

Málið sagt alvarlegt

Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar mun taka viðskipti ráðherrans til rannsóknar. Hann svarar því ekki beint hvort hann geti setið áfram í ráðherrastólnum á meðan hann sætir slíkri rannsókn. Moe leggur hins vegar áherslu á að hann hafi ekki haft aðgang að innherjaupplýsingum. Málið snúist um hann hafi brotið siðareglur og verið vanhæfur til að sitja á fundum ríkisstjórnarinnar, sem vörðuðu Kongsberg og Ammo, en samt setið þá.

Tone Sofie Aglen, stjórnmálaskýrandi norska ríkisútvarpsins, segir að ekki verði betur séð en að málið sé alvarlegt. Siðareglur ríkisstjórnarinnar og reglur hennar um hlutabréfaviðskipti hafi verið brotnar og spurningum um persónulegan ágóða Moe sé enn ósvarað. Hún segir málið grafa undan trausti á ríkisstjórn Jonas Gahr Støre forsætisráðherra.

Sylvi Listhaug, leiðtogi Framfaraflokksins (n. Fremskrittspartiet) sem er í stjórnarandstöðu, segir málið dæmi þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skilji ekki hlutverk sitt. Það eigi að liggja í augum uppi að það gangi ekki að kaupa hlutabréf í fyrirtæki og taka á sama tíma þátt í vinnslu mála, á vettvangi ríkisstjórnarinnar, sem varða þetta sama fyrirtæki. Málið sé alvarlegt og neyðarlegt fyrir ríkisstjórnina.

Fulltrúar annarra flokka sem rætt var við sögðu málið skýrt brot á siðareglum ríkisstjórnarinnar og sumir þeirra telja að Stórþingið ætti að taka það til sérstakrar rannsóknar. Einn þingmaður sagði ekki annað hægt en að Ola Borten Moe segi af sér.

Þeir þingmenn sem tjáðu sig um málið við norska ríkisútvarpið sögðu það alvarlegt það þetta sé enn eitt málið þar sem ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar ganga í berhögg við siðareglur og segja sig ekki frá málum sem þeir eru vanhæfir til að sinna vegna persónulegra hagsmuna og tengsla.

Tonje Brenna menntamálaráðherra skipaði í síðasta mánuði vin sinn í stjórn Wergelandsenteret sem m.a. veitir fræðslu um lýðræði og mannréttindi. Mál hennar er til rannsóknar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Stórþingsins og hún er í leyfi frá störfum á meðan.

Annette Trettebergstuen menningarmálaráðherra þurfti, í júní síðastliðnum, að segja af sér eftir að hafa skipað þó nokkra vini sína í stöður og stjórnir sem hún hafði vald til að skipa í. Ljóst er að hún var í öllum tilfellum vanhæf til að taka ákvarðanir um viðkomandi skipanir í ljósi tengsla sinna við viðkomandi einstaklinga.

Ola Borten Moe var spurður af fréttamanni Norska ríkisútvarpsins hvort að ríkisstjórnin ætti í vandræðum með að koma fram af heilindum. Hann vildi ekki tjá sig um önnur mál en sagðist fyrir mánuði hafa verið spurður hvort að það væru einhver vandkvæði með hans heilindi. Þá hafi hann verið sannfærður um að svo væri ekki en sjái núna að hann hafi ekki hugsað málið til enda.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum