Karlmaður sem stal bíl og lögregla veitti eftirför um höfuðborgarsvæðið var handtekinn við Lyngás í Garðabæ á öðrum tímanum í dag.
Hér má sjá myndband af handtökunni en um umfangsmikla aðgerð var að ræða.
Samkvæmt umfjöllun RÚV barst lögreglunni tilkynning um 12:38 að bíl af gerðinni Toyota Land Cruiser hafi verið stolið í Garðabæ. Lögregla hóf þegar eftirför og bárust leikar úr Garðabæ og eftir Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð og áfram þar til bílþjófurinn snéri við til móts við álverið í Straumsvík. Þaðan keyrði maðurinn aftur í gegnum Hafnarfjörð, svo um Kauptún og Hraunahverfið og að lokum inn í Lyngás þar sem hann stoppaði bílinn og var handtekinn af fjölmennu liði lögreglu.
Samkvæmt sjónarvotti urðu töluverð átök þegar maðurinn var handtekinn og áttu fjölmargir lögreglumenn fullt í fangi með að hafa manninn undir.
Að sögn aðalvarðstjóra var bíllinn á gríðarlegum hraða eða iðulega um 150 kílómetra hraða á klukkustund. Þá urðu lögreglumenn meðal annars fyrir því óhappi að missa stjórn á lögreglubíl, lenda utan vegar og á ljósastaur. Betur fór þó en á horfðist og engin slys urðu á fólki vegna aðgerðarinnar.
Auk þjófnaðarins er maðurinn grunaður um að hafa keyrt undir áhrifum en hann er í haldi lögreglu og verður yfirheyrður síðar í dag.