„Skrif mbl.is í dag um skiptafund í búi Torgs er mestmegnis slúður og hrein ósannindi. Sumt af því sem kemur þar fram er beinlínis atvinnurógur,“ segir Helgi Magnússon, aðaleigandi Fjölmiðlatorgsins, sem gefur út DV, og helsti kröfuhafi í bú þrotabú Torgs, sem gaf út Fréttablaðið. Vísir greinir frá.
Helgi gerir alvarlegar athugasemdir við tvennt í frétt mbl.is í morgun um málefni Torgs. Annars vegar er þar fullyrt að skiptastjóri Torgs ehf, Óskar Sigurðsson, hafi hafnað tæplega milljarðs kröfu Helga í þrotabúið. Þetta segir Helgi vera alrangt. Segir hann að krafan sé athugasemdalaust á lista yfir almennar kröfur sem lagður var fram á fundinum. „Kröfu Hofgarða var ekki hafnað, þetta vita þeir sem sátu fundinn,“ segir Helgi í viðtali við Vísi.
Hins vegar hafnar Helgi með öllu þeim fréttaflutningi mbl.is að til skoðunar sé að rifta kaupum Hofgarða á vörumerkjum og réttindum Torgs, þar á meðal DV. „Kaupin voru þá greidd að fullu á háu verði. Skiptastjóri fór ítarlega yfir rekstur búsins á fundinum í gær allt frá upphafi og gat um helstu aðgerðir og atburði sem varða uppgjör búsins. Þar var ekkert minnst á umrædda riftun sem ranghermt var á mbl.is,“ segir Helgi.