Alls eru 3.745 einstaklingar hér á landi ekki skráðir með lögheimili, það er eru skráðir með ótilgreint lögheimili eða óstaðsettir hús.
Kemur þetta fram í skriflegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata.
Fyrirspurn Björns Leví var svohljóðandi: „Í hversu mörgum íbúðum á enginn sér skráð lögheimili, í hversu mörgum íbúðum á einn sér skráð lögheimili, í hversu mörgum íbúðum eiga tveir sér skráð lögheimili, og svo framvegis? Hversu margir eiga sér ekki skráð lögheimili neins staðar? Stemmir fjöldi þeirra sem eiga sér skráð lögheimili við fjölda íbúa á Íslandi? Ef svo er ekki, hverju munar?“
Í svari ráðherra kemur fram að ekki sé hægt að taka út tölur niður á íbúðanúmer þar sem ekki séu allir íbúar fjölbýlishúsa skráðir niður á íbúðanúmer og því ekki hægt að segja til um fjölda einstaklinga í hverri íbúð eins og staðan sé í dag. Fjöldi húseigna sem ekki hafa skráða íbúa er samtals 4.011 eða um 5,5% af öllum húseignum landsins.
Í svari ráðherra segir að þessar tölur stemmi við skráningu í þjóðskrá um fjölda íbúa og lögheimila.