Maður á sjötugsaldri lést af slysförum í gær er hann féll fram af Ystakletti í Vestmannaeyjum. Var hann ásamt fleiri mönnum að störfum við smölun er slysið varð. Maðurinn hét Ólafur Friðrik Guðjónsson og var fæddur árið 1955. Hann var sjómaður og útgerðarmaður.
Í tilkynningu lögreglu um slysið í gær segir: „Kl. 13:40 í dag barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning um að maður hafi fallið úr Ystakletti og hafnað í sjónum. Félagar úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja héldu þegar á vettvang og náðu manninum úr sjónum en hann reyndist vera látinn. Maðurinn var búsettur í Vestmannaeyjum og var með hópi manna við smölun í klettinum þegar að óhappið varð og hátt fall á þeim stað sem maðurinn féll. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur nú yfir. Vill lögregla þakka öllum viðbragðsaðilum og vottar aðstandendum samúð.“
Sonur hins látna, Guðjón Ólafsson, segir að slysið hafi ekki verið neinum að kenna. Hann tjáir sig um málið í stuttri færslu á Facebook, sem hann gat DV góðfúslegt leyfi til að endurbirta. Þar kveður hann föður sinn með fallegum orðum:
„Kæru vinir og kunningjar. Þið sem ekki vitið þá vildi ég upplýsa ykkur að slysið sem varð í gær henti pabba minn. Pabbi bað mig að hjálpa við smölun og voru fleiri menn við verkið. Það var still og fallegt veður en blautt í grasi. Ég lokaði fyrir kindurnar í réttinni og kvaddi þá þar sem vinna beið mín heima, meðan þeir pústuðu og myndu síðan bólusetja. Síðustu orð pabba við mig var að lýsa mér bestu leið frá réttinni til að fara niður. Hann fór því miður aðra leið niður tæpri klst seinna. Tvær af síðustu kindunum sluppu og hann rífur í aðra með þeim afleiðingum að hann missir fóta. Þetta var harmleikur og engum að kenna. Pabbi elskaði sjóinn og úteyjalífið og hann fékk að kveðja þar. En það er sárt að kveðja svo skyndilega. Blessuð sé minning pabba.“
Guðjón var með föður sínum skömmu fyrir dauðaslysið. Segir hann í viðtali við DV að faðir hans hafi lagt hart að sér við smölunina en vissulega hafi hann verið farinn að gefa eftir, var t.d. slæmur í hné og var auk þess kvefaður þegar slysið varð. „Ég var með honum þarna, var uppi í smölun og hann beið í réttinni. Við tókum þarna einn og hálfan tíma í hring, hann beið en ég smalaði. Þeir voru þarna fimm eða sex sem urðu eftir í réttinni. Þeir voru að rýja og bólusetja og það voru bara tvær kindur eftir. Þær eru að reyna að taka á rás og þeir stökkva hvor á sína kindina, svona eins og menn gera og eru eðlileg viðbrögð. En honum virðist hafa skrikað fótur í blautu grasinu og rúllaði af stað, þá var ekki hægt að stoppa. Þetta var bara algjört slys og rannsóknarskýrslan staðfestir það. Þeir eru þarna nánast beint fyrir ofan hellinn, þarna er skora þar sem er réttin og þetta er mjög hátt fall. Við vitum ekki hvort hann rotaðist á leiðinni en þegar hann lendir þá er þetta bara búið. Þetta gerðist svo hratt að hinir sáu hann varla, einn sá til hans rúlla niður.“
Guðjón segir að faðir sinn hafi verið góður maður og góður faðir. Hann hafi upplifað ýmislegt sem sjómaður. „Þegar ég var sjö ára þá var hann skipstjóri á bát sem fór niður og hann og annar maður björguðust.“
Guðjón segir að úteyjarnar og sjórinn hafi verið líf og yndi föður síns og því sé það huggun að hann hafi fengið að kveðja á þessum slóðum. Fjölskyldan er núna að koma saman og reyna að jafna sig og ná áttum eftir hið óvænta og sorglega fráfall Ólaf Friðriks Guðjónssonar.
Fréttin hefur verið uppfærð.