Maður nokkur varar fólk við svikahröppum og biður fólk upp á passa upp á kort sín í færslu í hópnum Íbúasamtökin Betra Breiðholt.
„Dagurinn í dag er sá dagur sem ég missti allt traust…Kortið hjá ónefndum aðilla rann út í gær og hefur bankinn sent kortið heim í gegnum póstinn. Þegar ég fer að sækja kortið í póstkassann sé ég sjón sem enginn vill sjá,“
segir maðurinn.
Í færslunni fullyrðir hann að starfsmaður hjá póstinum hafi opnað umslagið og tekið niður allar upplýsingar á því og beðið eftir því að kortið myndi verða virkt við fyrstu færslu með PIN númeri.
„Ég er að setja þetta hérna því að aðillinn sem á kortið er eldri en 60 ára. Sem segir mér að þá aðili sem stendur á bak við þetta sé að eltast við eldra fólk sem tekur mögulega ekki eftir þessu. Skoðið vandlega öll umslög þar sem póstinum er ekki treystandi.“
Maðurinn fullyrðir að um starfsmann Póstsins sé að ræða, en enginn staðfesting er fyrir þeim orðum mannsins. Í athugasemdum kemur fólk fram með ýmsar útskýringar, kona ein segir: „Ég veit um dæmi þar sem aðilar sitja um póstkassa og bíða eftir kortum til að stela öllum upplýsingum af og einnig er til fólk sem stelur kortinu sjálfu.“
Önnur kona skrifar: „Þarf ekki að hafa verið Pósturinn. Ég hef lent í því að fá kort nágrannakonu minnar sett í póstkassann hjá mér. Við heitum sama fornafni og föðurnafnið er líkt (ég vissi það ekki þá því hún skrifaði bara nafnið sitt og Á á póstkassann). Ég áttaði mig ekki á nafnaruglingnum fyrr en ég var búin að opna bréfið.
Ég var eins og kleina þegar ég fattaði þetta en gat engan veginn farið með þetta til hennar og útskýrt málið og því fór ég bara með kortið hennar í bankann og þeir sendu henni nýtt kort.“
„Mun líklegra að þetta hafi óvart farið í vitlausa lúgu, og sá aðili sem fékk bréfið hafi opnað það hugsunarlaust án þess að lesa utan á það. Það getur því miður komið fyrir, og það er algengara en þig grunar að fólk athugi ekki hvort það eigi póstinn sem það fær. Það er þó bót í máli að bréfið komst til skila, því að því miður þá er til fólk sem bara einfaldlega hendir pósti annarra í ruslið,“ segir maður nokkur.
Yfirlýsing frá Póstinum
„Við hjá Póstinum tökum svona ábendingum alvarlega og settum málið strax í ferli innanhúss hjá okkur. Við hjá Póstinum leggjum mikla áherslu á fagleg vinnubrögð og traust viðskiptavina er okkur mikilvægt. Eftir rannsókn innanhúss þá fundum við ekkert sem bendir til þess að starfsmaður Póstsins hafi átt hér hlut að máli.“