Eitt algengasta gervisætuefnið í heiminum verður líklega bætt á lista yfir efni sem mögulega geta valdið krabbameini á næstunni. Frá þessu greinir Reuters og vísar til tveggja heimildarmanna sem þekkja til þess ferlis sem slík skráning fer í gegnum, en þessi ákvörðun átti ekki að komast á almannavitorð fyrr en í næsta mánuði og er því um leka að ræða.
Um er að ræða gervisætuna aspartame sem er notuð í mörgum sykurlausum gosdrykkjum, sem og jafnvel í tyggigúmmí. Þeir drykkir sem við Íslendingar drekkum helst með þessu efni eru Coke Zero, Fanta Zero, Diet Coke, Pepsi Max og Sprite Zero, svo dæmi séu tekin.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) starfrækir undirdeild sem kallast Alþjóðleg krabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC), en heimildir herma að IARC hafi komist að þeirri niðurstöðu fyrr í þessum mánuði að aspartame geti valdið krabbameini, en sú niðurstaða byggði á fundi með sérfræðingum þar sem markmiðið var að meta hvort eitthvað tiltekið sé skaðvaldur eða ekki út frá fyrirliggjandi rannsóknum.
Það var fyrir fjórum áratugum síðan sem undirdeild WHO sem fjallar um aukaefni lýsti því yfir að aspartame væri öruggt til neyslu innan tiltekinna marka. Til dæmis þyrfti fullorðinn einstaklingum sem er 60 kíló að þyngd að drekka á bilinu 12-36 dósir af sykurlausu gosi daglega til að það geti haft neikvæð áhrif á heilsu hans. Magnið er breytilegt þar sem styrkur aspartame er ólíkur eftir drykkjum. Regluverk í Evrópu hefur byggt á þessari fullyrðingu.
Munu áðurnefndar niðurstöður vera bundnar trúnaði þar til í júlí, en sagt er að um sé að ræða fyrsta stóra skrefið í áttina að því að skilja betur krabbameinsvaldandi áhrif. Nefnd WHO um aukaefni gerir áhættumat sem metur líkurnar á að tiltekinn skaði, svo sem krabbameini, eigi sér stað við tilteknar aðstæður og við hversu mikla nálægð.
Segir að framleiðendur sem noti aspartame, sem og þeir sem setja reglur um slíka starfsemi, óttist að niðurstöðurnar muni valda ruglingi og áhyggjum meðal almennings. Ljóst er að þessi fyrirhugaða skráning muni hafa mikil áhrif, en áður hafði til dæmis efnið glyphosate verið fært á lista yfir mögulega krabbameinsvaldandi efni og varð það tilefni fjölda málsókna frá neytendum sem töldu sig hafa orðið fyrir skaða, jafnvel eftir að aðrar stofnanir, svo sem matvælaöryggisefnd Evrópu, hafði mótmælt skráningunni.
IARC hefur verið gagnrýnt fyrir að kynda undir óþarfa ótta almennings við efni sem erfitt er að sneiða hjá. Á listanum yfir efni sem geta valdið krabbameini eru efni flokkuð eftir því hversu líklegt sé að þau valdi krabbameini. Þessi flokkun byggir ekki á mati á skaðsemi efnanna heldur á því hversu sterkar sannanir eru fyrir skaðseminni. Til dæmis sé á listanum að finna, sem líklega krabbameinsvaldandi, það að vinna alla nóttina og það að neyta rauðs kjöts. En í þeirri skráningu felst að það séu takmarkaðar sannanir fyrir því að efnin eða aðstæðurnar valdi krabbameini og að annað hvort séu betri gögn fyrir hendi um að þetta valdi krabbameini hjá dýrum eða að sterkar sannanir séu fyrir því að þetta hafi svipuð einkenni og önnur efni sem valda krabbameini í mönnum.
Eins er að finna á lista, yfir efni sem mögulega geti valdið krabbameini, geislun frá farsímum. Síðasti flokkurinn er svo kallaður „óflokkaður“ en í honum má finna efni þar sem sannanir eru af skornum skammti.
Hefur lekinn á þessari fyrirhuguðu skráningu valdið töluverðum usla, en margir sérfræðingar óttast að þetta verði til þess að fólk fari frekar að neyta sykraðra drykkja. Reuters greina frá því að aspartame hafi verið ítarlega rannsakað í gegnum árin.
Rannsókn sem fór fram í Frakklandi í fyrra, með 100 þúsund manna úrtaki, hafi bent til þess að fólk sem drekki mikið af gervisætu, þar á meðal aspartame, séu aðeins líklegri en aðrir til að fá krabbamein.
Önnur rannsókn fór fram á Ítalíu skömmu eftir aldamótin sem benti til þess að sum krabbamein í músum og rottum mætti tengja við aspartame.
Báðar þessar rannsóknir hafa þó verið umdeildar, bæði hvað varðar aðferðafræði sem og túlkun á niðurstöðum.
WHO birti í seinasta mánuði leiðbeiningar þar sem neytendur voru varaðir við því að neyta gervisætu í megrunarskyni.