Kvika fjárfestingabanki hefur slitið viðræðum um samruna bankans við Íslandsbanka. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar en Vísir greinir frá.
Viðræður um mögulegan samruna bankanna hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Í tilkynningu sinni segir Kvika að stjórn bankans hafi séð verulegan ávinning í samruna. Hins vegar hafi afburðir síðustu daga breytt stöðunni:
„Í ljósi atburða síðustu daga og þess að fyrirséð er að boðað verði til hluthafafundar hjá Íslandsbanka og mögulegs stjórnarkjörs, telur stjórn Kviku ekki forsendur til þess að halda samningaviðræðum áfram,“ segir í yfirlýsingunni frá Kviku. Ennfremur segir:
„Þó er ljóst að ávinningur af samruna félaganna gæti orðið verulegur og hefur stjórn Kviku lýst yfir vilja sínum til þess að hefja viðræður að nýju ef forsendur skapast.“