fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Metár í sögu UNICEF á Íslandi

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 14. júní 2023 12:53

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasta ár var metár hjá landsnefnd UNICEF á Íslandi þar sem aldrei fyrr hefur jafnmikið safnast í neyðarsafnanir í þágu barna um allan heim. Tekjur jukust um 17,4% milli ára og þegar upp var staðið var rúmlega 745 milljónum króna ráðstafað til verkefna UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á árinu.

Aðeins ein landsnefnd í heiminum safnaði hlutfallslega hærri framlögum en sú íslenska árið 2022 en Íslendingar eiga sem fyrr heimsmet í hlutfallslega flestum Heimsforeldum. Hér á Íslandi beitti UNICEF sér fyrir réttindum barna á flótta, Réttindaskólum og -frístundum fjölgaði enn á árinu og verkefnið þróað áfram fyrir leikskólastig og nú býr rúmur helmingur barna á Íslandi í sveitarfélagi sem ýmist er, eða vinnur að því að verða, Barnvænt sveitarfélag.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2022 sem birtist í dag.

„Ótrúlegur stuðningur fólks, fyrirtækja og stjórnvalda við réttindi barna“

„Það er ekki hægt annað en að standa auðmjúk gagnvart þeim árangri sem náðist á síðasta ári því þar endurspeglast ótrúlegur stuðningur fólks, fyrirtækja og stjórnvalda við réttindi barna. Fjárframlög í neyðarsafnanir slógu öll met og með framlögum Heimsforeldra tryggðum við jafnframt dýrmæt framlög í verkefni sem ekki ná í fréttirnar, þ.m.t. reglubundnar bólusetningar, menntun og aðgengi að hreinu vatni og næringu. Þá erum við ekki síður stolt af öflugu réttindastarfi okkar á Íslandi, með sveitarfélögum, skólum og stjórnvöldum – og opnun UNICEF Akademíunnar – til að tryggja að öll þekkjum við réttindi barna,“ er haft eftir Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF, í tilkynningu.

 

Metár í neyðarsöfnunum

Sá atburður sem umfram allt annað setti mark sitt á árið 2022 var stríðið í Úkraínu og þar stóð hvorki á hjálpsemi né samkennd landsmanna. Langstærsta hlutfall þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í neyðarsafnanir UNICEF á Íslandi var vegna Úkraínu eða alls 184.744.382 krónur.

Þó ástandið í Úkraínu hafi fengið mikla athygli þá stóð UNICEF á Íslandi fyrir mörgum neyðarsöfnunum árið 2022, meðal annars vegna mannúðarkrísu á Afríkuhorninu, jarðskjálfta í Afganistan og líkt og fyrri ár, var safnað fyrir börn í Sýrlandi og Jemen.

Þegar árið 2022 var gert upp höfðu alls safnast 206.685.407 krónur í allar neyðarsafnanir UNICEF á Íslandi á árinu. 

Framlög í heimsklassa

Tekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2022 námu 1.000.816.025 krónum, sem er 17,4% aukning frá árinu áður, og hafa tekjurnar aldrei verið meiri. Rétt rúmlega 60% af tekjunum komu frá Heimsforeldrum, mánaðarlegum styrktaraðilum UNICEF, sem voru um 25 þúsund í fyrra. Þessi mikli stuðningur íslensku þjóðarinnar við markmið UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um réttindi fyrir öll börn skilaði sér í því að framlag landsnefndar UNICEF á Íslandi var hlutfallslega næsthæst allra landsnefnda á árinu. Þessi stuðningur og velvild sýnir fyrst og fremst það mikla traust sem UNICEF nýtur meðal almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til góðra verka í þágu velferðar og réttinda barna um allan heim.

Landsnefnd UNICEF á Íslandi ráðstafaði alls 672.610.115 krónum til alþjóðlegra verkefna UNICEF auk þess sem ráðstafað var til innlendra verkefna og réttindagæslu 72.753.259 krónum.

Alls námu því framlög UNICEF á Íslandi til verkefna UNICEF um allan heim 745.363.374 krónum árið 2022, eða 77,1% af hverri krónu sem gefin var til landsnefndarinnar.

Af hverjum 100 krónum sem gefnar voru til UNICEF á Íslandi árið 2022 fóru 4 krónur í stjórnun, 5 krónur í kynningarmál og 14 krónur í að safna næstu 100 krónum til að hjálpa enn fleiri börnum sem á þurfa að halda.

Mikil aukning í framlögum fyrirtækja

Íslensk fyrirtæki voru dýrmætir bandamenn UNICEF á Íslandi á árinu og varð mikil aukning í framlögum fyrirtækja til starfs UNICEF á árinu. 75 fyrirtæki, stór sem smá, styrktu UNICEF á Íslandi á árinu og stærstur hluti vegna verkefna í Úkraínu og nágrannalöndum. Alls söfnuðust 165.209.386 krónur frá fyrirtækjum og er það umtalsverð aukning frá fyrra ári þegar upphæðin nam rúmum 66 milljónum.  Færum við fyrirtækjaráði UNICEF á Íslandi og okkar mörgu samstarfsfyrirtækjum og velunnurum kærar þakkir fyrir stuðninginn og samstarfið á árinu.

Öflugt innanlandsstarf

Innanlandsstarf UNICEF á Íslandi hefur aldrei verið eins öflugt og árið 2022 þar sem áhersla var lögð á rétt barna til þátttöku og unnið að mörgum verkefnum því tengdu. Börnum á flótta á Íslandi fjölgaði mikið og beitti UNICEF á Íslandi sér fyrir réttindum þeirra og þrýsti á stjórnvöld að bæta stöðu barna á flótta líkt og gert hefur verið frá árinu 2017. Fulltrúar UNICEF á Íslandi hafa átt fundi með ráðherrum, boðið upp á fræðslu og aðstoð við að tryggja barnvæna móttöku barna á flótta. Meðal annars fékk starfsfólk móttökumiðstöðvar Domus Medica og sumarnámskeiðs Hjálpræðishersins fræðslu um Barnasáttmálann og réttindi barna á flótta. Þá tók fulltrúi UNICEF á Íslandi sæti í nýjum samráðshópi Mennta- og barnamálaráðuneytisins um málefni barna á flótta.

Yfir helmingur barna á Íslandi býr nú í sveitarfélagi sem tekur þátt í verkefni UNICEF, Barnvæn sveitarfélög. Grundarfjörður, Múlaþing, Skagaströnd og Strandabyggð bættust í hópinn á árinu og er fjöldi sveitarfélaga í verkefninu orðinn 21.

UNICEF á Íslandi hefur náð til fjölmargra barna með verkefninu Réttindaskólar og –frístund UNICEF og eru nú 28 grunnskólar, leikskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem hlotið hafa viðurkenningu sem slík. Það eru 12.111 börn í leik- og grunnskólum sem annað hvort hafa hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF eða vinna að innleiðingu verkefnisins. Auk þeirra eru 1.058 börn í leikskólum þar sem leikskólakennarar hafa hlotið réttindafræðslu frá UNICEF á Íslandi.

Rafrænn fræðsluvettvangur um réttindi barna

Annað stórverkefni sem vert er að minnast hjá innanlandsteyminu er opnun UNICEF Akademíunnar, sem er rafrænn fræðsluvettvangur um réttindi barna. Styður Akademían meðal annars við fræðslu fyrir Barnvæn sveitarfélög og Réttindaskóla- og frístund og hafa hátt í tvö þúsund manns nýtt sér þá fræðslu. Þá stóð landsnefndin fyrir námskeiðum og gaf út handbók fyrir ungmennaráð sveitarfélaga. Hápunktur ársins í þeim efnum var ráðstefnan „Tækifæri til áhrifa“ um þátttöku barna í starfi sveitarfélaga, skóla og frístund þar sem komu saman starfsfólk og kennarar í grunn- og leikskólum, frístund, félagsmiðstöðvum, einstaklingar innan stjórnsýslunnar sem taka ákvarðanir er varða börn og annað áhugafólk um réttindi barna og þátttöku þeirra.

Eftirtektarverður stuðningur íslenska ríkisins

Þá ber einnig að nefna að íslenska ríkið telst eftir sem áður til fyrirmyndarstyrktaraðila UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu vegna bæði hárra kjarnaframlaga, sem námu 150 milljónum króna árið 2022, og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. UNICEF er skilgreind sem ein af lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins og UNICEF til fyrirmyndar.

Auk kjarnaframlaga til UNICEF lætur íslenska ríkið einnig til sín taka í samstarfi við UNICEF í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Framlög íslenska ríkisins til verkefna UNICEF í Úkraínu, Kenía, Úganda, Síerra Leóne og Palestínu námu, að kjarnaframlögum meðtöldum, alls rúmum 784 milljónum króna á síðasta ári. Við færum íslenskum stjórnvöldum hjartans þakkir fyrir hönd þeirra ótal barna sem njóta góðs af þessum stuðningi sem við getum öll verið stolt af.

Þetta og margt annað má lesa nánar um í ársskýrslu UNICEF á Íslandi 2022 sem nálgast má í heild sinni hér.

Upptöku frá ársfundinum, sem var í beinu streymi, má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa