Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir kynferðisbrot og brot gegn valdstjórninni vegna atviks sem átti sér stað fimmtudagskvöldið 14. apríl árið 2022.
Maðurinn er sakaður um að hafa þá brotið af sér í lyftu í fangageymslu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Er hann sagður hafa gripið um klof lögregukonu sem var við skyldustörf. Einnig er hann sakaður um að hafa hrækt á konuna inni í fangaklefa stuttu síðar.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Lögreglukonan krefst 2,5 milljóna króna í miskabætur.
Aðalmeðferð verður í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 8. júní næstkomandi.