Haraldur Þorleifsson athafnamaður opnar sig í einlægri færslu á Twitter þar sem hann segir frá erindi sem hann hélt í dag á ráðstefnu um þáttöku barna með hreyfihömlun í íþróttum. Segir Haraldur að hann hafi ekki áttað sig á þegar hann samþykkti að flytja erindið að það myndi opna á gömul sár, „sár sem ég hef gert mitt allra besta til að afneita í 30 ár.“
„Ég veit ekki af hverju ég sagði já við að tala. Í rauninni þá líka mér alls ekki íþróttir, og í raun er bara illa við þær. Þannig að þegar ég fór að hugsa um hvað ég ætti að tala um þá hugsaði ég að ég hefði gert mistök með að taka þetta að mér,“ segir Haraldur sem fór að velta fyrir sér af hverju honum er illa við íþróttir.
„Ég er bara með vöðvarýrnunarsjúkdóm, sjúkdóm sem lýsir sér á marga vegu. Í mínu tilviki þá hafði haft fyrst áhrif á fæturna. Samt ekki svo mikið, ég gat leikið með hinum krökkunum. Ég get á skrítinn hátt en það truflaði mig lítið. En eftir því sem ég varð eldri þá áttaði ég mig á að ég var ekki eins og hinir krakkarnir. Ég gat ekki hlaupið jafn hratt, sparkað jafn fast, hoppað eins hátt. Þetta særði mig en ég beit á jaxlinn.“
Haraldur rifjar upp að í frímínútum í skólanum hafi hann spilað fótbolta með hinum. Þegar valið var í lið var hann jafnan valinn síðastur. „Það truflaði mig ekki mikið, en samt, en ég beit á jaxlinn,“ segir Haraldur sem segist hafa verið betri í öðrum íþróttum, þar sem hann gat notað hendurnar meira. Því ákvað hann að fara með vini sínum á handboltaæfingu, íþrótt sem er vinsæl á Íslandi. Þar sá hann alla íþróttastrákana úr skólanum sínum.
„Það tók mig aðeins nokkrar mínútur að átta mig á að þessi staður var ekki fyrir mig. Að einhver með mínar áskoranir væri ekki velkominn til að vera með. Ég var líklega tíu ára. Þetta særði og ég man að ég grét á leiðinni heim. En ég beit á jaxlinn.“
Haraldur reyndi sig sem markmaður í fótbolta í skólanum. Hann segist hafa verið handsterkur og ekki svo lélegur leikmaður. „Þetta var frábært. Ég gat spilað með hinum. En þá sögðu krakkarnir að ég hlypi eins og storkur. Það særði. En ég hætti ekki að spila. Ég beit á jaxlinn.“
Haraldur segir að með tímanum hafi öll þessi atvik safnast saman, smátt og smátt hafi hann byrjað að spila minna og minna. „Það voru of mörg skipti þar sem var gert grín að mér eða ég var skilinn útundan. Og minn staður varð minni, staðurinn sem mér fannst ég tilheyra. Stundum voru það aðrir sem gerðu hann minni. En aðallega var það ég sjálfur sem gerði hann minni. Það var betra að ákveða sjálfur að vera ekki með.“
Orðinn aftengdur líkama sínum
Í dag er Haraldur 45 ára og segist hann hafa áttað sig á því fyrir nokkrum árum að hann er aftengdur líkama sínum.
„Líkami minn er þarna eða ætti ég að segja, hérna? Hann er ytra. Óvinur. Hluturinn sem heldur mér frá því sem mig langar að gera. Ég held að þetta hafi ekki þurft að verða svona. Ég reyndi. Mikið. En ég var bara barn.
Ég gefst ekki auðveldlega upp. Ég hef farið á hnefanum í gegnum marga erfiðleika. En á ákveðnum tímapunkti þá brutu öll sárin mig. Það var ekki eitt atvik. Eða eitt orð. Eða einhver einn sem lagði mig í einelti.
Og þannig er líklega upplifun allra sem eru aðeins öðruvísi. Þetta snýst aldrei um einn hlut. Á einhverjum tímapunkti er bakpokinn einfaldlega orðinn of þungur að bera lengur.“