Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt föður í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að beita son sinn endurteknu ofbeldi á sameiginlegu heimili þeirra og þar með ógnað heilsu og velferð barnsins.
Ofbeldisbrotin áttu sér stað á rúmlega tveggja ára tímabili, frá 16. mars 2019 til 5. ágúst 2021. Beitti faðirinn son sinn ítrekuðum refsingum sem fólust í því að berja barnið með belti ýmist á rass, bak, maga eða iljar auk þess að hóta því að beita beltinu í önnur skipti.
Upp um málið komst þegar drengurinn undirgekkst læknisskoðun þann 6. ágúst 2021 í kjölfar árásar föðursins þar sem að greindur var 1 x 1,5 cm áverka á vinstri lendarhrygg.
Ákæra í málinu var gefin út í október 2022 en fyrir dómi viðurkenndi faðirinn skýlaust sök í málinu. Faðirinn hafði áður fengið dóm fyrir ölvunarakstur árið 2013 en í ljósi játningarinnar og þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot þá var ákveðið að fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára væri hæfileg refsing í málinu.
Þá var föðurnum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns sem í ljósi umfangs málsins voru 662.904 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.