Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, lagði fram tillögu á fundi velferðarráðs í vikunni um lækkun á leigu smáhýsanna að Fiskislóð 1.
Leggur hún til að leigan verði lækkuð til að samsvara leiguverði Félagsbústaða þar sem fermetraverð spilar inn í leiguverð. Bendir Sanna á að leiguverðsgrunnur Félagsbústaða byggi á fasteignamati og leigustuðli fyrir ólík póstnúmer en mánaðarleiguverð sértækra búsetuúrræða Félagsbústaða og almennra leigueininga sem ekki hafa fasteignamat er óháð leiguhverfi og er ákvarðað þannig að greitt er fast gjald fyrir hverja leigueiningu auk breytilegs gjalds sem er í réttu hlutfalli við birt flatarmál leigueiningar.
Tekur Sanna dæmi um tvær íbúðir Félagsbústaða til samanburðar við smáhýsin:
„Sé litið til þess þá má sjá að leiga smáhýsa er hlutfallslega mun hærri en leiga íbúða hjá Félagsbústöðum. Sem dæmi þá er mánaðarleiga fyrir 62 fermetra íbúð í Vesturbæ 130.900 kr. (fermetraverð um 2.100 kr.) og mánaðarleiga fyrir 59 metra íbúð í Efra Breiðholti er 106.416 kr. (fermetraverð rétt yfir 1.800 kr.). Leiguverð fyrir 25 fermetra smáhýsi að Fiskislóð 1 er hinsvegar tæpar 87.000 kr. á mánuði auk 10 þúsund kr. hússjóðs sem gerir samanlagt um 3.900 kr. á fermetrann.“
Leggur hún til að Fjármálaskrifstofu velferðarsviðs verði falið að útbúa leiguverð sem tekur mið af þessum veruleika. Einnig verði litið til leiguverðs smáhýsa á öðrum staðsetningum með ofangreint í huga.
Reykjavíkurborg heldur utan um leiguíbúðir í gegnum Félagsbústaði sem er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar.
Fyrirspurn Sönnu um leiguverð smáhýsa er eftirfarandi:
Hvernig er leiguverð fyrir smáhýsi borgarinnar reiknað út og hvaða forsendur lágu að baki þeirrar ákvörðunar? Hefur leiguverðsgrunnurinn tekið breytingum í gegnum tíðina og ef svo er, hvernig þá? Er greiðsla mismunandi eftir staðsetningu smáhúsanna? Hvað felst í hússjóði og er hann mismunandi eftir staðsetningu smáhúsanna?