Undanþágunefnd Eflingar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi beiðni Slysavarnafélagsins Landsbjargar um undanþágu til afgreiðslu eldsneytis á björgunartæki félagsins, og nær undanþágan til allra björgunarsveita.
Slysavarnafélagið Landsbjörg er að vinna að því í samstarfi við olíufélögin hvernig afgreiðslu eldsneytis á björgunartæki mun fara fram eins og segir í tilkynningu frá félaginu.
Engu að síður getur sú staða komið upp að viðbragð björgunarsveita verði hægara og hugsanlega skert, sökum þess að félagar þeirra hafi ekki aðgang að eldsneyti, en félagið er að vinna viðbragðsáætlun með sveitunum til að minnka líkur á svo verði eins og kostur er.
Framundan er enn einn stormurinn og því er rétt að hvetja landsmenn til að fara sér að engu óðslega, fresta ónauðsynlegum ferðum inn á hálendið eða utan alfaraleiða með hugsanlegt skert viðbragð sveitanna í huga.