Sjónvarpsmaðurinn landskunni og einn rómaðasti sögumaður þjóðarinnar, Gísli Einarsson, tekst nú á við nýja áskorun í lífinu eftir langan og farsælan feril í öllum sínum hlutverkum. Hann reynir núna afar sjaldgæfan taugasjúkdóm á eigin skinni.
„Þessi sjúkdómur hrjáir einn af hverri milljón manna – og það er nú þannig í mínu lífi að ég er yfirleitt þessi eini,“ segir Gísli í afar opinskáu og einlægu spjalli við Sigmund Erni Rúnarsson í viðtalsþættinum Mannamáli sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 19:00 og endursýndur verður strax að því loknu klukkan 21:00 og 23:00.
Hann var krankleikans var fyrir fáum árum, en tíma tók að greina hann nákvæmlega – og segir Gísli það mega þakka einum læknanna sem hafi hreinlega ekki gefist upp fyrr en nafn var komið á meinið.
Það reyndist bera skammstöfunina PAF (e. Pure Autonomic Failure) og lýsir sér með þeim hætti að blóðþrýstingur fellur við áreynslu í stað þess að aukast.
„Þetta gerir það að verkum að ég verð máttlaus og missi fótanna,“ útskýrir Gísli og bætir við. „Þetta geta verið nokkuð vandræðaleg augnablik.“
Og stundum kalli þetta á misskilning, ekki síst á mannamótum þar sem hann er tíður gestur, en til að halda sér uppi þurfi hann oft og einatt að klemma saman fótleggina – og fólk haldi fyrir vikið að hann sé að pissa á sig þegar hið rétta er að hann er að reyna að halda uppi blóðþrýstingnum.
„Þetta er auðvitað íþyngjandi, en eitthvað sem ég þarf bara að lifa við,“ segir Gísli í viðtalinu, en brot úr viðtalinu má sjá á vef Fréttablaðsins.