Leigubílstjóri í Kópavogi óskaði aðstoðar lögreglu í nótt. Farþegi hafðí ráðist á hann og komið honum út úr leigubílnum. Farþeginn ók síðan burtu á leigubílnum. Lögregla náði að stöðva bílinn stuttu síðar og farþeginn var handtekinn, grunaður um rán, akstur undir áhrifum áfengis auk fleiri brota. Var hann vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Leigubílstjórinn leitaði til bráðamóttöku til skoðunar en ekki er vitað um meiðsli hans.
Frá þessu segir í dagbók lögreglu. Þar greinir einnig frá umferðaróhappi er bíll valt á Reykjanesbraut. Urðu minniháttar meiðsli og einnig nokkrar skemmdir á bílnum.
Tilkynnt var um skrifborðsstól við Miklubraut við Réttarholtsveg. Einhver var búinn að fjarlægja stólinn er lögregla kom að.
Höfð voru afskipti af erlendum manni í hverfi 105 en hann er grunaður um vörslu fíkniefna. Við nánari skoðun vaknaði grunur um að einstaklingurinn væri í ólöglegri dvöl í landinu. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í Hafnarfirði. Voru tveir handteknir, grunaðir um líkamsárás og voru þeir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.