Þann 2. febrúar næstkomandi verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Reykjaness í máli manns sem sakaður er um svívirðilegan glæp gegn barni. DV hefur ákæru Héraðssaksóknara í málinu undir höndum en maðurinn er ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku á nýársdag árið 2020, eða eins og segir í ákæru: …„með ólögmætri nauðung og án samþykkis, stungið fingrum inn í leggöng.“
Brotið telst varða við 1. málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi:
„[Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.] “
Tveir aðrir ákæruliðir eru í ákærunni. Maðurinn er sakaður um að hafa að kvöldi miðvikudagsins 21. júlí árið 2021 slegið lögreglumann sem var að handtaka hann ásamt öðrum lögreglumönnum með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut mar, bólgu og hruflsár á enni.
Í þriðja lagi er maðurinn síðan ákærður fyrir að hafa að kvöldi þriðjudagsins 5. október 2021 tekið borðhníf og ógnað forstöðumanni áfangaheimilis með hnífnum. … „en þegar B ætlaði að taka hnífinn af ákærða rakst hnífurinn í andlit B með þeim afleiðingum að ann hlaut sár á hægri kinn,“ segir í ákæru.
Fyrir hönd stúlkunnar sem maðurinn er ákærður fyrir að hafa brotið gegn er krafist tveggja milljóna króna í miskabætur.
Sem fyrr segir verður réttað í málinu þann 2. febrúar næstkomandi.