DV fjallaði í gær um stórhættulegan leik sem Dagmar Stefánsdóttir varð vitni að í Hagkaup Skeifunni síðastliðið föstudagskvöld. Þar voru tveir ungir drengir, sem Dagmar telur að hafi verið um 10 ára gamlir, að ganga á milli viðskiptavina búðarinnar og biðja fólk um far. „Þetta er stórhættulegur leikur að mínu mati og mér fannst mikilvægt að benda á þetta svo að foreldrar geti brugðist við og rætt við börn sín,“ sagði Dagmar um leikinn.
„Þetta er víst einhver leikur þar sem krakkar mana hvort annað til að spyrja ókunnuga um far heim til sín,“ segir Dagmar. Reglur leiksins eru, að hennar sögn, þær að ef einhver sér aumur á krökkunum og samþykkir að skutla þeim heim þá verði þátttakendur að láta sig hafa það. Annars mega þeir búast við því að verða fyrir einhverskonar aðkasti af skólafélögum.
Lesa meira: Dagmar varð vitni að hættulegum leik ungra drengja í Hagkaup og varar foreldra við
Dagmar telur að hugmyndin af þessum „leik“ komi frá samfélagsmiðlinum TikTok en miðillinn er einn sá vinsælasti meðal krakka í dag.
Thelma Rut Elíasdóttir er ansi vinsæl á miðlinum og fylgjast því nokkuð margir íslenskir krakkar með henni þar. Thelma, sem gengur undir nafninu thelmi.trunt á TikTok, fann sig knúna til að vekja athygli á þessum leik og vara krakkana á miðlinum við honum. „Endilega deilið þessu áfram svo sem flestir séu meðvitaðir um þennan stórhættulega leik,“ segir hún í lýsingunni á myndbandinu.
„Það eru missniðug trend sem ganga um á TikTok og það nýjasta er að biðja ókunnugt fólk um far,“ segir Thelma í myndbandinu sem hún birti á síðunni sinni. „Leikurinn snýst um að krakkar mana hvort annað í að spyrja ókunnuga um far heim, ef þau fá jákvætt svar þá „þurfa“ þau að að þiggja farið en ef einhver neitar að leika leikinn þá mun sá aðili lenda í „veseni“ í skólanum.
Thelma bendir á að eitt af því fyrsta sem börnum er kennt er að þiggja aldrei far hjá ókunnugu fólki, sama hvað. „Foreldrar ykkar hafa örugglega sagt þetta svona 100 sinnum við ykkur en þar sem margir ungir krakkar eru að fylgjast með mér á TikTok þá þarf ég bara að ítreka það: Aldrei þiggja far með ókunnugum,“ segir hún og heldur áfram að senda krökkunum skýr skilaboð.
„Aldrei láta aðra segja þér hvað þú átt að gera gegn þínum vilja. Stattu með þér og stattu með vinum þínum. Taktu rétta ákvörðun án þess að hræðast afleiðingarnar.“
@thelmi.truntEndilega deilið þessu áfram svo sem flestir séu meðvitaðir um þennan stórhættulega leik❤️♬ snowfall – Øneheart & Reidenshi