„Þetta er stórhættulegur leikur að mínu mati og mér fannst mikilvægt að benda á þetta svo að foreldrar geti brugðist við og rætt við börn sín,“ segir Dagmar Stefánsdóttir sem varð vitni að óþægilegu atviki í Hagkaup í Skeifunni í gærkvöldi. Þar voru tveir ungir drengir á ferð, sem Dagmar telur að hafa verið um 10 ára gamlir, sem gengu á milli viðskiptavina stórmarkaðarins og báðu fólk um að skutla sér heim.
„Þetta er víst einhver leikur þar sem krakkar mana hvort annað til að spyrja ókunnuga um far heim til sín,“ segir Dagmar. Reglur leiksins að hennar sögn eru þær að ef einhver sér aumur á krökkunum og samþykkir að skutla þeim heim þá verði þátttakendur að láta sig hafa það. Annars mega þeir búast við því að verða fyrir einhverskonar aðkasti af skólafélögum.
Eins og gefur að skilja geta komið upp hættulegar aðstæður af athæfi sem þessu en það kom blessunarlega ekki til þess í gær. „Við fylgdumst með þeim álengdar og viðskiptavinirnir sem voru spurðir urðu bara hissa og enginn sem bauð þeim far,“ segir Dagmar.
Hún sendi aðvörun um uppátækið á vinsælar síður á Facebook og hefur færsla hennar vakið töluverða athygli og er í mikilli dreifingu.
Að því er Dagmar best veit er hugmyndin af þessu athæfi komin af samfélagsmiðlinum Tiktok en margar slíkar mananir til krakka grasseri á miðlinum og sumar vinsælli en aðrar. „Þetta sýnir bara mikilvægi þess að foreldrar fylgist með hvað börnin þeirra eru skoða á netinu og ræði við þau,“ segir Dagmar.