Mikill kuldi er víðast hvar á landinu í dag sem getur verið á bilinu fimm til tuttugu stig. Kuldinn er óþægilegur fyrir okkur mannfólkið en ekki síður dýralífið eins og falleg Facbeook-færsla Lögreglunnar á Suðurnesjum minnir á.
Þar er greint frá því að lögreglumenn hafi fengið ábendingu frá árvökulum vegfaranda um gæs sem var með gogginn frosinn saman. Ónefndi vegfarandinn, sem greinilega er sannur dýravinur, lagði til úlpuna sína til að hlýja gæsinni þar til lögreglu bar að og komu henni til bjargar. Gæsinn varð færð inn í hitann innandyra og kúrir nú á gólfi lögreglustöðvarinnar.
„Hún biður að heilsa öllum og minnir fólk á að klæða sig vel,“ segir í hinni fallegu færslu.