Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann í kvöld afar sterkan sigur á Portúgal í fyrsta leik liðsins á HM. Um spennuþrunginn leik var að ræða þar sem Strákarnir okkar sýndu mátt sinn og megin á lokamínútunum og unnu að lokum fjögurra marka sigur 30-26.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta var að vonum ánægður eftir fjögurra marka sigur Íslands á Portúgal í fyrstu umferð riðlakeppni HM í kvöld.Í viðtali við RÚV eftir leik sagði Guðmundur að baráttan hjá Strákunum okkar hafi verið til fyrirmyndar í leiknum.
„Við byrjuðum mjög vel og vörnin var frábær nær allan tímann. Það var algjört lykilatriði og þá var Björgvin mjög góður í markinu, Viktor Gísli kom síðan smá inn og við náðum að hvíla hann eftir að þeir höfðu skotið tvisvar sinnum í höfuðið á honum.“
Tæknifeilar léku leikmenn Íslands grátt í fyrri hálfleik.
„Sóknarleikurinn byrjar mjög vel en svo förum við fram úr sjálfum okkur. Í fyrri hálfleik gerum við níu tæknifeila, það voru mörkin sem þeir voru að fá frá okkur, þeir skora raunverulega bara sex mörk úr uppstiltum sóknum en voru að nýta sér tæknimistök okkar. Við ræddum þetta í hálfleik og náðum að fækka feilunum niður í þrjú stykki sem þýðir að þeir fá ekki jafn auðveld mörk í síðari hálfleik.“
Hann var ánægður með baráttuna hjá sínum mönnum.
„Baráttan var til fyrirmyndar, þetta er ekkert auðvelt verkefni ég er búinn að benda á það. Þetta er rosalega erfitt lið að vinna, þetta er frábært lið. Við nálguðumst þetta verkefni af gríðarlegri fagmennsku, vorum einbeittir og þurftum á öllu okkar að halda.“
Ísland mætir Ungverjalandi á laugardaginn kemur og segir Guðmundur að um allt öðruvísi andstæðing sé að ræða þar.
„Það er gríðarlega mikils virði að byrja þetta svona, núna er næsta verkefni handan við hornið og við þurfum að ná okkur niður. Fara yfir það sem var gott í kvöld og annað sem við eigum inni.
Andstæðingur okkar í næsta leik er allt öðruvísi og þyngra lið með stærri skyttur. Það er öðruvísi handbolti sem þeir spila og við þurfum að undirbúa okkur af kostgæfni fyrir það.“