fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Hafrún hjólar í nýjasta æði Íslendinga – „Galin pæling“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. janúar 2023 22:00

Hafrún Kristjánsdóttir - Mynd: HR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, birti í dag færslu á Facebook-síðu um hugvíkkandi efni en þau hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Hafrún virðist þó ekki vera jafn hrifin og margir af efnunum og efast um að þau séu lausn við geðröskunum eða lykill að hamingju. Hún líkir efnunum við önnur æði sem hafa komið upp hér á landi í upphafi færslunnar.

„Íslendingar virðast taka allt með miklu trompi, fótanuddtæki, ketó, air fryer og nú hugvíkkandi efni. Umræðan um hugvíkkandi efni er alveg ótrúlega undarleg. Af umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að dæma mætti halda að hér væri búið að finna lausn á geðröskunum og hér sé bara lykilinn af hamingju heimsbyggðarinnar. Ég einhvernvegin leyfi mér að efast stórlega um að svo sé, því miður.“

Hafrún segir að fjölmörg lyfjafyrirtæki séu komin eitthvað áleiðis í rannsóknum á efnum sem þessum vitnar svo í ummæli sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lét falla í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær: „Það er hins vegar ekki enn búið að sýna fram á að þetta hafi nein meiriháttar áhrif, til bata, á geðsjúkdómum.“

Sjá einnig: Kári Stefánsson segir hugvíkkandi efni í meðferðarskyni gífurlega spennandi en segir virkni þeirra sé enn ósannaða

Í færslunni segir Hafrún svo að það sé möguleiki á að rannsoknir eigi eftir að leiða í ljós að svona efni hafi áhrif til bata, umfram lyfleysu, á ákveðnar geðraskanir. Hún heldur þó að það sé ólíklegt að hugvíkkandi efni muni hafa verulega góð áhrif á allar geðraskanir.

„Ef í ljós kemur að þessi efni hafi áhrif á bata á ákveðnum geðröskunum er þó fullnaðarsigur ekki í höfn því þá þarf að skoða hvort áhrifin séu meiri en með þeim aðferðum sem eru, samkvæmt rannsóknum, áhrifaríkastar núna. Þá vísa ég sérstaklega til SSRI lyfja og vel strúktúrerðra hugrænar atferlismeðferðar.“

Fólk ætti ekki að „prjóna yfir sig“

Hafrún segir að svo þyrfti að skoða allskonar aðra þætti betur. Hún bendir á að það þurfi að rannsaka þau nánar áður og að fólk ætti ekki að „prjóna yfir sig.“

„Það eru vísbendingar um að þessi efni geti mögulega hjálpað, það þarf frekari rannsóknir til þess að geta fullyrt um gagnsemi (og öryggi) efnanna. Þetta þarf bara að hafa sinn gang, það er tímafrekt en algjörlega nauðsynlegt að gera rannsóknir á nýjum lyfjum. Svo við skulum ekki prjóna yfir okkur, bíðum bara hæfilega vongóð eftir niðurstöðum rannsókna.“

Í huga prófessorsins er þetta einfalt, eða „alveg basic“ eins og hún orðar það. Þess vegna kemur það henni á óvart hversu hástemd umræðan er varðandi þessi efni. Hún segir að þetta sé líka „alveg basic“ í huga bandaríska geðlæknafélagsins og vitnar í ummæli frá félaginu.

„There is currently inadequate scientific evidence for endorsing the use of psychedelics to treat any psychiatric disorder“ og „Clinical treatments should be determined by scientific evidence in accordance with applicable regulatory standards and not by ballot initiatives or popular opinion.“

Hafrún segir að svo séu allskonar skrítnir vinklar á málinu. „Maður sér sama fólk dásma þessi efni og tala fjálglega um gagnsemi þeirra og taldi gjörsamlega galið að láta bólusetja sig því það var ekki búið að rannsaka Covid bóluefnin nægilega mikið,“ segir hún.

„Þess ber að geta að bóluefnin fóru í gegnum alla þrjá fasa lyfjarannsókna en ekki er búið að klára þriðja fasa rannsókna hvað hugvíkkandi efnin varðar. Mótsögnin er því algjör.“

„Þetta er vandræðaleg tillaga“

Næst talar Hafrún svo um þingsályktunartillögu sem lögð var fram síðasta haust. Í tillögunni er kallað eftir heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni. Þá er lagt til að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni.

Hafrún segist halda að tillagan sé „eitthvað það skrítnasta sem hefur komið frá Alþingi bara frá upphafi.“

Hún segir að það sé eins og fólkið sem kom að tillögunni hafi „bara alveg gleymt að hugsa.“ Tillagan ber að hennar sögn keim af popúlisma og vanþekkingu á hvernig vísindi og rannsóknir virka. „Ég þekki suma af þeim sem eru skráðir fyrir þessari tillögu og ég veit að þar fer klárt og gott fólk. Það hefur bara ruglast aðeins þegar það setti nafn sitt á þessa tillögu,“ segir hún.

„Byrjum á þessu með lög og reglugerðir sem heimila tilraunir og rannsóknir með hugvíkkandi efni. Lagaramminn hérlendis er þannig að það eru engar sérstakar hindranir í að rannsaka hugvíkkandi efni og bara nákvæmlega engin þörf á að breyta neinum lögum né reglugerðum. Þetta eru held ég allir sem þekkja til sammála um.“

Þá tekur Hafrún fyrir það að Ísland eigi að vera leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni. „Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja,“ segir hún.

„Í fyrsta lagi er það ekki hlutverk Alþingis og alþingismanna að hafa bein áhrif á hvaða rannsóknir vísindamenn hérlendis gera. Það er einhver stæk forræðishyggja í því og það mætti draga hugtök eins og akademískt frelsi inn í þessa umræðu. Alþingi á að passa upp á að umhverfi til rannsókna sé almennt til sóma hérlendis en ekki koma með tillögu að tiltekið fólk á Landspítalnum eða við háskólanna fari að stunda rannsóknir á einhverju tilteknu efni alveg óháð áhuga þeirra eða getu til að gera þessar rannsóknir. Það fólk sem getur gert þessar rannsóknir hérlendis var ekki einu sinni spurt, eftir því sem ég best veit, hvort það hefði áhuga, tíma og resourca. Það hljóta allir að sjá hvað þetta er galin pæling.“

Hafrún segir að tillagan lýsi „einhverju fullkomnu þekkingarleysi“ á innviðum rannsókna hér á landi. „Þeir eru stórlega ofmetnir í þingsályktunartillögunni svo ekki sé meira sagt,“ segir hún.

„Fyrir mér er þetta þetta álíka kjánalegt og að segja að Ísland eigi að vera leiðandi á heimsvísu í keppnishjólreiðum á næsta ári. Ekkert tillit tekið til aðstæðna hér á landi, fámennis eða skorti á fjármagni. Fyrir þá sem hafa áhuga á þessari tillögu þá getið þið lesið umsagnir sem hafa borist um hana, það er áhugaverð lesning.“

Að lokum segir Hafrún að hún gæti haldið lengi áfram. „En eflaust er ég búin að drepa alla úr leiðindum nú þegar. Þetta þarf bara að hafa sinn gang, simple as that. Alþingi þarf svo pínu að hysja upp um sig. Þetta er vandræðaleg tillaga,“ segir hún.

„Ég vil taka fram að ég mun vera himinlifandi, eins og held ég allir sem starfað hafa innan geðheilbrigðiskerfisins ef í ljós kemur að hugvíkkandi efni reynist, samkvæmt rannsóknum, verulega árangursrík meðferð. Ég held að það sé ágætt að vitna í orð séra Friðriks að lokum, látum ekki kappið bera fegurðina ofurliði. Yfir og út.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“