Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, segir í viðtali við þýska fjölmiðilinn Bild Zeitung að það hafi verið sérstaklega ergilegt að kasta frá sér unnum leik gegn Íslandi.
Þjóðverjar leiddu um tíma með sex mörkum í undirbúningsleik liðanna í Bremen, fyrir HM í handbolta, sem hefst um miðja næstu viku. Ísland stal hins vegar sigrinum í lokin og lokatölur urðu 30-31.
Alfreð, sem einu sinni var landsliðsþjálfari Íslands og hefur þjálfað þýsk topplið áratugum saman, sagði orðrétt: „Við verðum að reyna að lágmarka mistökin sem við gerðum í dag. Ergilegt að hafa eiginlega kastað frá okkur unnum leik.“
Bild rekur tapið til þess að Alfreð hafi skipt inn á mörgum leikmönnum á lokakafla leiksins. Þess má geta að Íslendingar skiptu út ákveðnum lykilmönnum sem náðu sér ekki á strik og þeir sem komu inn í staðinn áttu stórleik.
Í viðtalinu gagnrýndi Alfreð leikstjórnandann Juri Knorr. Hann segir hann hafa leikið vel í 40 mínútur en gert allt of mörg sóknarmistök í lokahluta leiksins.
Liðin mætast að nýju á sunnudag. Á fimmtudag leikur Ísland fyrsta leikinn á HM, gegn Portúgal.