Viðskiptavinir bílastæðaþjónustunnar Lagningar lentu í miklum erfiðleikum í nótt. Stórir hópar farþega komu frá Kanaríeyjum, Tenerife og fleiri sólarlöndum, fólk sem hafði dvalist þar yfir hátíðarnar. Farþegi sem var að koma frá Gran Canaria þurfti að bíða eftir að fá bílinn afhentan frá Lagningu frá kl. 1:30 í nótt til 7:30, eða sex klukkustundir.
Upp úr kl. fjögur í nótt lýsti hann stöðunni svo: „Það eru nú um það bil 50 manns að bíða eftir bílunum sínum frá Lagningu. Ungabörn upp í eldra fólk og það er ekki einu sinni hægt að hringja í þetta blessaða fyrirtæki. Sumir hafa fengið símtöl um að ekki sé vitað hvar bílarnir eru. Það er ekki góð upplifun fyrir fólk að vita ekki hvar bílarnir þeirra eru og hvað þá þegar það getur ekki farið heim. Núna er klukkan að ganga 05:00, ég á að mæta í skólann á eftir og hvað veit ég hvað allt hitt fólkið þarf að gera. Fólk hér er dauðþreytt enda flest allt fólkið hér að koma frá Tenerife, Spáni eða Kanarí, fólk hefur reynt að hringja í lögguna en ekkert getur hún svo sem gert, en fólk er bara áhyggjufullt og vill bara komast heim.“
Aðspurður sagðist farþeginn loks hafa fengið bílinn sinn frá Lagningu um hálfáttaleytið í morgun, eftir sex klukkustunda bið.
Fjölmargir farþegar nýta sér þjónustu Lagningar og fleiri sambærilegra fyrirtækja sem sjá um að geyma bílinn á meðan dvöl erlendis stendur og afhenda hann við komu. Þjónustan kostar sitt en samkvæmt heimasíðu Lagningar er grunngjaldið fyrir geymslu 5.900 krónur og bætast síðan við 590 krónur fyrir hvern sólarhring. Á heimasíðu Lagningar segir:
„Starfsmenn Lagningar eru á vakt allan sólarhringinn og fylgjast með því hvenær vélin þín lendir. Við erum með upplýsingar um flugið þitt og vitum hvenær þú snertir íslenska grundu. Þá bíðum við á flugstöðinni og tökum á móti þér fyrir framan brottfarir með bíllyklana tilbúna, sama hvaða tíma sólarhringsins.
Bíllinn bíður svo spenntur eftir þér brottfaramegin við Leifsstöð, oftar en ekki volgur.“
DV hringdi í símanúmer Lagningar og þar svaraði örvæntingarfullur starfsmaður á plani. Var þetta erlendur maður sem upplýsti á ensku að fjórir starfsmenn hefðu hætt störfum í nótt og margir bílar hefðu verið fastir í snjó.
DV náði síðan sambandi við framkvæmdastjóra Lagningar, Írisi Hrund Sigurðardóttur, sem segir að fyrirtækið hafi átt í miklum erfiðleikum vegna ófærðarinnar undanfarið.
„Þegar snjórinn kom 18. desember þá erum við með yfir 400 bíla fasta í snjó og við fengum ekki mokstur því Ísavía var búið að kaupa allan mokstur frá bænum sem hægt var að fá. Eins og komið hefur fram í fréttum var Reykjanesbær stútfullur af snjó og fólk komst ekki í vinnu í marga daga. Við erum síðan með útkeyrt starfsfólk, þau hafa öll unnið dag og nótt í hrikalega erfiðum aðstæðum, enginn hefur fengið hvíld. Við erum meira að segja búin að athuga hvort við fáum aðstoð hjá björgunarsveitinni bara til að láta fólk fá bíl. Síðan gerðist það í nótt að starfsfólkið gafst bara upp. Þetta eru óviðráðanlegar aðstæður og við erum að gera okkar besta til að vinna úr þessu.“
Íris heitir því að ástandið munu núna lagast: „Þetta er síðasta brekkan sem við erum að klára. Strax á morgun verða aðstæður orðnar betri. Það fór hálf þjóðin til Kanarí og Tenerife um jólin.“