Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður og skólameistari, telur að algjört stefnuleysi ríki í skógrækt á Íslandi og að í óefni stefni þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Hjálmars í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Hjálmar að grundvallaratriði í allri náttúruvernd sé að viðhalda fjölbreytileika lífríkis og það séu skyldur sem þessi kynslóð beri gagnvart komandi kynslóðum. Að hans mati hafi það farið úr böndunum varðandi sáningu lúpínu hér á landi.
„Undirritaður hefur átt því láni að fagna að hafa stundað veiðar við Laxá í Leirársveit í áratugi. Lengst af nutum við dvalar við ána og á milli kasta gátum við notið umhverfisins. Víða mátti sjá hina fallegu eyrarrós, mófuglar létu vel af sér vita – með öðrum orðum hin villta, íslenska náttúra veitti okkur dásamlegan unað. Í dag er
eyrarrósin horfin sem og mófuglarnir og árbakkar eru óþekkjanlegir. Hvað veldur? Lúpínan hefur dreift sér niður með allri ánni og skríður hratt upp eftir bökkunum. Fjölbreytileikinn við árbakkann er horfinn af því að við fórum okkur óvarlega með innf lutta plöntu. Svipuð dæmi má sjá svo víða þar sem lúpínan skríður yfir mela og móa og útrýmir því sem fyrir er. Þetta kannast líklega flestir við,“ skrifar Hjálmar.
Að hans mati stefnir í sambærilegt óefni varðandi skógrækt hérlendis. Bendir Hjálmar á að fyrirhugað sé að planta um 7 milljónum trjáa hérlendis á vegum Skógræktar ríkisins auk þess sem einkaaðilar gera en sannkallað„villta vestrið“ ríki og afleiðingarnar geti orðið slæmar.
„Margt bendir þó til að við höfum farið offari í þessum efnum. Ríkið ver hundruðum milljóna í skógrækt en þar virðist ríkja algjört stefnuleysi. Bara að planta
trjám sem víðast og hafa tegundir sem flestar. Getur verið að við séum á sömu leið með skógræktina og við fórum með lúpínuna? Norðmenn hafa vaknað upp við vondan draum. Þeir vörðu milljónum í skógrækt – svipað og við erum að gera – en eru nú að ná áttum og verja orðið milljónum í að eyða skógum! Sumar ágengar tegundir einfaldlega hafa tekið völdin með alvarlegum af leiðingum. Má þar nefna eyðingu gróðurs sem er fyrir (skógarbotn verður súr og fátt þrífst í honum, mófuglar hopa, útsýni hverfur o.s.frv.) Hjá okkur ríkir enn „villta vestrið“ og við erum hvött til að planta trjám úti um allar koppagrundir. Afleiðingarnar eru að byrja
að koma í ljós og eiga eftir að versna á löngum tíma.“
Að mati Hjálmars er mikilvægt að stefna í málaflokknum verði mótuð sem fyrst og ákveðið hvert markmiðið sé með skógræktinni.
.„Viljum við tré alls staðar? Viljum við afmarka svæði fyrir skógrækt, sbr. Heiðmörk og slíka staði? Hvaða tegundir viljum við sjá hér? Fræðimenn benda á að ýmsar tegundir séu um of ágengar og hafi til lengri tíma svipuð áhrif og lúpínan. Þar hafa sérstaklega verið nefndar tegundir á borð við stafafuru og sitkagreni. Sú fyrrnefnda, að minnsta kosti , mun dreifa sér sjálf. Jarðvegur um hana verður gegnsúr og drepur allan annan gróður. Viljum við há tré alls staðar? Hvað segja ferðamenn sem hingað koma til að njóta víðernis í íslenskri náttúru. Dæmi eru þegar um að há tré séu farin að byrgja fyrir fallega útsýnisstaði. Viljum við gróðursetja
hvaða tegund sem er – bara að það sé tré?,“ skrifar Hjálmar.
Hann hvetur til þess að við Íslendingar nýtum okkur reynslu frændþjóða og notum ekki skattfé í gróðusetningu trjáa sem síðan þurfi að borga hátt vverð fyrir að eyða.