Landsréttur hefur fellt úr gildi nálgunarbann yfir ungum manni sem grunaður er um að hafa misþyrmt manni hrottalega í október síðastliðnum og ofsótt hann eftir árásina. Faðirinn skal hins vegar sæta nálgunarbanni. Feðgarnir saka brotaþolann um kynferðisbrot gegn systur mannsins sem sætir nálgunarbanninu, þ.e. sonarins.
Vitni voru að árásinni, sem átti sér stað þann 11. október síðastliðinn, og er árásin til rannsóknar hjá lögreglunni. Meðal vitna er lögreglumaður sem stöðvaði soninn er hann lúskraði á manninum og handtók hann í kjölfarið.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu setti soninn í nálgunarbann þann 9. desember, í sex mánuði. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nálgunarbannið. Er hann sagður hafa slegið árásarþolann endurtekið og sparkað í höfuð hans. Um þetta bera vitni og áverkavottorð staðfestir áverkana. „Á vettvangi líkamsárásarmálsins kvaðst X hafa ráðist á brotaþola og lamið hann, samverkamaður hans greindi frá með sama hætti. Þá hafa vitni greint frá með svipuðum hætti, þ.e. að kærði X hafi ásamt öðrum manni ráðist á brotaþola og bæði slegið hann endurtekið og sparkað í hann,“ segir um þetta í úrskurði héraðsdóms.
Faðirinn sagði í skýrslutöku að árásarþolinn skyldi lifa í ótta það sem eftir væri og hann fái aldrei frið svo lengi sem hann dregur andann. Hann viðurkenndi jafnframt að hafa hótað bæði árásarþolanum og foreldrum hans lífláti. Um þetta segir í úrskurði Héraðdóms, Y er þar faðirinn, en X sonurinn:
„Samkvæmt gögnum lögreglu er til rannsóknar ítrekaðar hótanir og röskun á friði af hálfu meðkærða Y í garð brotaþola auk líkamsárásar af hálfu kærða X. Brotaþoli
hefur greint frá því að kærði Y hafi ítrekað hótað honum og foreldrum hans lífláti og svo hafi kærði X ráðist á brotaþola í október sl. Kærðu eru feðgar og samkvæmt frásögn brotaþola er áreitið og ofbeldið tilkomið vegna meintra ásakana um kynferðisbrot brotaþola í garð fjölskyldumeðlims.“
Orðrétt er meðal annars að finna eftirfarandi hótun föðurins í garð árásarþolans, sem send var í textaskilaboðum:
„Ef ég næ þér einn daginn þá pynta ég þig þangað til þú ert dauður. Og það sama mun ganga yfir foreldra þína. Farðu með þetta í lögguna mér er skít sama. Að rústa þér andlega og líkamlega er það eina sem ég mun einbeita mér að það sem eftir er. Mundu ég á ekki erfitt með að sitja í fangelsi.“
Landsréttur fellir nálgunarbannið yfir syninum úr gildi á þeirri forsendu að ekki sé heimilt að beita nálgunarbanni ef hægt er að ná sama árangri með öðrum úrræðum. Í 6. grein laga um nálgunarbann segir: „Nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili verður aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“ – Í annarri grein sömu laga segir hins vegar að við slíka ákvörðun megi líta til þess hvort viðkomandi hafi áður sætt nálgunarbanni og hvort líklegt sé að hann endurtaki brotið. Í úrskurði Landsréttar segir: „Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2011 segir meðal annars að í ákvæðinu sé að finna meðalhófsreglu og að í henni felist að ekki sé heimilt að beita nálgunarbanni ef unnt er að ná sama árangri með öðrum og vægari úrræðum. Haft geti sérstaka þýðingu við matið hvort viðkomandi hafi áður verið gert að sæta nálgunarbanni eða hvort öðrum úrræðum hafi áður verið beitt í stað þess að beita því.“
Landsréttur er því ósammála lögreglustjóra og héraðsdómi og maðurinn er því ekki lengur í nálgunarbanni gagnvart árásarþolanum, þrátt fyrir sterkar grunsemdir um að hann hafi misþyrmt honum og gögn sem sanna áreiti föður hans við árásarþolann og fjölskyldu hans.
Landsréttur staðfesti hins vegar nálgunarbannið yfir föðurnum og sætir hann nálgunarbanni gagnvart manninum í sex mánuði.
Úrskurðina má lesa hér og hér
Ath. Fréttin hefur verið leiðrétt. Ranglega var fullyrt að faðirinn væri grunaður um líkamsárás, hið rétta er að eingöngu sonurinn er sakaður um líkamsárás en faðirinn sakaður um hótanir og áreiti.