Búið er að birta þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidór Nathanssyni ákæru héraðssaksóknara þar sem þeir eru sakaðir um tilraun til hryðjuverka. Ungu mennirnir tveir hafa undanfarna mánuði setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna.
DV hafði samband við Karl Inga Vilbergsson, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara, og óskaði eftir afriti af ákærunum. Karl sagði að ákærurnar yrðu ekki afhentar fjölmiðlum fyrr en þær hefðu verið birtar formlega og héraðsdómur hefði gefið út fyrirkall.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs, segir að orðalag í ákærunni á hendur hans skjólstæðingi sé loðið og ekki séu tilgreindir einstaklingar eða stofnanir sem skjólstæðingur hans eigi að hafa verið að undirbúa hryðjuverk gegn.
„Já, minn maður er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka með því að hafa ætlað að valda ótilgreindum hópi á ótilgreindum stað bana eða líkamstjóni. Ákæran er eins loðin og hugsast getur,“ segir Sveinn Andri í samtali við DV.
Hann er þungorður um ákæruna sem hann gefur lítið fyrir: „Eina tilraunin sem hér liggur fyrir er tilraun til að leggja líf tveggja ungra manna í rúst.“
Sveinn Andri segir að það skorti allar undirbúningsathafnir til að hægt sé að fullyrða að mennirnir hafi gert tilraun til hryðjuverka:
„Til þess að unnt sé að dæma fyrir tilraun þurfa raunverulegar undirbúningsathafnir að hafa átt sér stað. Það er ekkert!“
Sveinn bendir á að þeir sem hafi verið sakfelldir fyrir tilraunir til hryðjuverka á Norðurlöndum hafi annaðhvort verið að sanka að sér vopnum eða sprengiefnum, eða haft tengsl við hryðjuverkahópa. Slíku sé ekki til að dreifa hér.
„Minn maður hefur játað að hafa búið til og selt byssur, sem er brot á vopnalögum. Óneitanlega mjög sérstakur undirbúningur hryðjuverka að láta frá sér vopnin sem sögð eru hluti af undirbúningi. Hann var ekki tekinn með nein vopn. Vopnin í málinu eru eign annars aðila.“
Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem menn eru ákærðír fyrir tilraun til hryðjuverka.