Sky News segir að tilraunirnar hafi leitt í ljós að lyfið hreinsaði köggla af prótíni, sem heitir amyloid og er talið vera helsti orsakavaldur algengs minnistaps, úr heilum sjúklinga.
Niðurstöður tilraunanna voru kynntar á ráðstefnu í San Francisco og tóku vísindamenn þeim mjög vel og vöktu þær góðar vonir um að hægt verði að ná árangri í baráttunni við Alzheimers. Margir fundargesta hafa unnið að rannsóknum á sjúkdómnum áratugum saman til að reyna að finna út hvað veldur honum og hvernig sé hægt að lækna hann.
Rob Howard, prófessor í öldrunargeðlæknisfræði við University College London, sagði að niðurstöðurnar séu „dásamlegar og veki vonir“. Nú séum við loksins komin með smá tök á þessum hræðilega sjúkdómi og nú hafi áralangar rannsóknir og fjárfestingar skilað árangri.
„Þetta er þýðingarmikið og sögulegt. Þetta mun ýta undir raunverulega bjartsýni um að hægt verði að sigrast á elliglöpum og að dag einn verði jafnvel hægt að lækna þau,“ sagði hann.
Niðurstöður tilraunarinnar með Lecanemab sýndu að lyfið hægði á minnishrörnun og hrörnun andlegrar fimi um 27% hjá sjúklingum með mild einkenni Alzheimers.