Guðný Ingvarsdóttir, aðstoðarvarðstjóri við fangelsið á Sogni, býður Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, að heimsækja fangelsið á Sogni við fyrsta tækifæri. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem hún hefur ritað og birtist hjá Vísi.
Bréfið ritar hún í tilefni af fyrirhugaðri lokun fangelsisins sem er henni hjartansmál en í bréfinu segist hún hafa lagt sitt að mörkum til að gera fangelsið að góðum stað til að vera á sem geti virkilega hjálpað þeim vistmönnum sem þar dvelja til að verða betri manneskjur.
„Jörðin Sogn í Ölfusi hefur mikinn sjarma, útsýnið er stórfenglegt, víðsýnt, friðurinn mikill og bæjarstæðið er einstaklega fallegt. Það eru því forréttindi að mínu mati, að fá að starfa á Sogni í þessu umhverfi með þeim vistmönnum sem þar eru. Möguleikarnir eru miklir bæði til framkvæmda, sköpunar og sjálfbærni, sem auka þyrfti enn frekar og stefnt er að. Það er einnig mikill kostur sem hlýtur að vera rekstrarlega hagkvæmt, hvað stutt er í alla þjónustu frá Sogni sbr. alla bráðaþjónustu, sé þess þörf.“
Guðný segir að á Sogni sé pláss fyrir 21 vistmann og þar af 3 konur, sem sé þeirra sérstaða í þessu opna úrræði. Reynt sé eftir fremsta megni að finna atvinnu á staðnum fyrir hvern og einn vistmann miðað við getu þeirra og kunnáttu.
Guðný hafi lagt mikinn metnað í að fegra umhverfið og gera það heimilislegt.
„Áhuginn á garðrækt hefur aukist sem og þekking á umhirðu gróðurs, en það er mikil betrun fólgin í því að huga að einhverju á lífi og sjá það vaxa og dafna. Á Sogni erum við með hænur sem eru afar fallegar og við gætum að velferð þeirra, en margir vistmenn hjá okkur eru miklir dýravinir. Staðurinn hefur þann möguleika að auka á dýralífið sem að ég teldi mikla gæfu fyrir staðinn, þar sem ég sjálf bý í sveit, er ég viss um það því dýrin veita okkur hugarró, þau eru æðrulaus og dæma okkur ekki.“
Sogn sé með föst verkefni fyrir fyrirtækið Set á Selfossi og í næsta nágrenni hafi átt sér stað mikil fólksfjölgun o uppbygging og tækifæri fangelsisins til samstarfs við þessi samfélög, á Selfossi, Hveragerði og Ölfusi sé því fjölmörg. Eins sé starfræktur skóli við fangelsið þar sem kennarar frá Fjölbrautaskóla Suðurlands koma og kenna og það samstarf hafi reynst vel.
Guðný segist innilega óskað þess að fangelsið fá fjármagn til að starfa áfram. Fangelsið sé staðsett skammt frá höfuðborgarsvæðinu, þar sem margir aðstandendur vistmanna búa, og því sé leiðin ekki löng til að koma í heimsókn sem sé mikill kostur og mikilvægur þáttur í betrun. Guðný hefur sjálf margar hugmyndir um að bæta aðstöðuna og efla Sogn enn frekar og segist tilbúin að leggja sitt af mörkum.
„Í orðtakinu: þú þarft að afla til þess að eyða, sný ég því við, þar sem mér finnst það eiga vel við í fangelsiskerfinu og segi að lokum: Þú þarft að eyða til þess að afla.
Það væri bæði fróðlegt og ánægjulegt að fá þig í heimsókn á Sogn við fyrsta tækifæri, það myndi gleðja okkur og vonandi þig, en við munum taka fagnandi á móti þér.“