Tónlistarmaðurinn Bubbi telur tíma kominn til að löglega kannabis hér á landi. Á meðan slíkt sé ekki gert sé í reynd verið að gera ungt fólk að glæpamönnum fyrir það eitt að „rækta arfa sem má reykja“
Hann vekur athygli á þessu á Facebook í tilefni af frétt Vísis um karlmann sem hlaut 15 mánaða dóm fyrir að hafa staðið að ræktun 14 kannabisplantna í íbúðarhúsi á Akureyri.
„15 mánuðir, ertu ekki að grínast“ skrifar Bubbi og bætir við: „Ungt fólk gert að glæpamönnum og fyrir það eitt að rækta arfa sem má reykja, þetta er galið.“
Bubbi telur ljóst hvernig ætti heldur að taka á þessum málum. „Lögleiða gras og hætta þessu að dæma ungt fólk í fangelsi.“
Bubbi bendir á að um þessar mundir sé hvert landið á eftir öðru að lögleiða kannabis og svo virðist sem að heimurinn sé að átta sig á því að það sé ekki að virka að „dæma fólk í fangelsi fyrir það eitt að velja sér sinn vímugjafa sem er ekki valdhöfum þóknanlegur.“
Í athugasemd ritar einn fylgjandi Bubba að það sé í reynd ekki lögin sem geri fólk að glæpamönnum heldur fólk sjálft þegar það ákveði að brjóta lögin. Bubbi svara því og segist ekki vera sammála.
„Við þurfum að hætta þessu bulli og lögleiða gras og afglæpavæða neysluskammta og það eru ólög að dæma ungt fólk í 15 mánaða fangelsi fyrir það eitt að velja sinn vímugjafa og sum lög eru ólög og kosta samfélagið ómælda þjáningu og pening.“
Fleiri taka undir með Bubba í athugasemdum. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að um sé að ræða stríð gegn fólki. Egill Helgason fjölmiðlamaður segir að þetta sé „mjög vafasamt“. Tónlistarmaðurinn segir að það sé „skömm að þessu“ og spyr í annarri athugasemd hversu margir þingmenn og ráðherrar hafi prófað gras.