fbpx
Laugardagur 04.febrúar 2023
Fréttir

Áreitni í gleðskap hafði afdrifaríkar afleiðingar á vinnustaðnum – Brottrekstur, grófar hótanir og rofinn „samskiptasamningur“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. nóvember 2022 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona tapaði á dögunum máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem hún hafði höfðað gegn fyrrum vinnuveitanda sínum vegna riftunar á ráðningarsamningi hennar.

Málið er sérstakt vegna þeirra aðstæðna sem leiddu til riftunarinnar, en riftun er eitt alvarlegast úrræðið sem hægt er að nýta í samningarétti en vegna riftunar átti konan ekki tilkall til launa í uppsagnarfrest. Taldi konan riftunina hafa verið ólögmæta og krafðist launagreiðslan í uppsagnarfrest sem og 10 milljón króna miskabóta vegna andlegs áfalls sem riftunin hefði valdið henni.

Áreitni sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar

Málið átti sér langa forsögu en árið 2019, í gleðskap, taldi konan að samstarfsmaður hennar hefði áreitt hana. Greindi hún vinnuveitanda sínum frá því í kjölfarið og var þá fenginn fagaðili inn á vinnustaðinn til að reyna að greiða úr málinu. Svo fór að konan og samstarfsmaðurinn gerðu sín á milli svokallaðan samskiptasamning, en í honum lofuðu þau að vinna vel saman og eiga hreinskilin samskipti sín á milli til að geta unnið saman og til að bæta starfsandann. Í samningnum fólst einnig að um efni hans máttu þau ekki ræða við óviðkomandi.

Síðan leið tíminn og allt gekk samkvæmt samningnum. Þar til 13 mánuðum síðar þegar samstarfsmanninum bárust grófar hótanir í gegnum samfélagsmiðla. Hótanirnar komu frá barnsföður konunnar. Sá heimtaði peningagreiðslu af hendi samstarfsmannsins, ellegar yrði ofbeldi beitt.

Eftir að hótanirnar bárust var haldinn fundur með konunni og samstarfsmanninum. Í kjölfar þess fundar hafði konan samband við barnsföður sinn, að hennar sögn til að biðja hann um að hætta að hóta samstarfsmanni hennar. Barnsfaðirinn hins vegar hætti ekki heldur sendi frekari hótanir og að þessu sinni vísaði hann til fundarins sem hafði átt sér stað vegna málsins, svo vinnuveitandinn taldi öruggt að konan hefði greint barnsföður sínum frá efni fundarins, en um hann hafði átt að ríkja trúnaður.

Höfðu ástæðu til að taka hótanirnar alvarlega

Vinnuveitandinn vissi hver barnsfaðir konunnar var. Sá átti sögu um fíkniefnaneyslu og ofbeldishegðun og þótti vinnuveitandanum fullt tilefni til að taka hótanir hans alvarlega. Því væri eina lausnin í stöðunni að rifta ráðningarsambandinu við konuna.

Í ábyrgðarbréfi þar sem konunni var tilkynnt um riftunina var rakið að hún hefði gerst sek um „gróft trúnaðarbrot“ með því að greina barnsföður sínum frá fundinum. Og eins hefði hún ekki staðið við samskiptasamninginn sem hún hafði gert. Tók vinnuveitandinn fram að skýringar konunnar, um að hún hefði ekkert með þessar hótanir að gera, væru ótrúverðugar í því ljósi að samkvæmt Facebook-síðu barnsföðurins væru þau byrjuð aftur saman.

Lögmaður konunnar mótmælti riftuninni og sagði að hótanir barnsföðurins hefðu komið henni í opna skjöldu og ekki verið fyrir hennar tilstilli. Hún hefði ekki viljað þessi afskipti.

Vinnuveitandinn hafnaði kröfu hennar um greiðslu launa í uppsagnarfresti, sem og kröfu hennar um lögmannskostnað og miskabætur.

Sífellt ógeðsfelldari hótanir

Í málinu er rakið að eftir að samningnum var rift hafi konan farið í „sumarlangt“ ferðalag með barnsföður sínum og á þeim tíma hafi hann áfram sent samtarfsmanninum alvarlegar hótanir og jafnvel hótað því að skaða eiginkonu hans, börn og foreldra. Hélt barnsfaðirinn áfram að krefjast peningagreiðslu.

Konan hélt því fram við rekstur málsins að hún hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna riftunarinnar. Hún hafi ekki fengið að kveðja samstarfsmenn sína og þeim verið greint einhliða frá málavöxtum. Hún hafi upplifað mikla vanlíðan og ekki séð sér annað fært en að flýja land í nokkra mánuði. Eins hafi henni gengið í kjölfarið illa að finna nýja vinnu.

Vinnuveitandinn tók undir með konunni hvað varði að hún beri ekki ábyrgð á framkomu barnsföður síns, hins vegar sé ljóst að hún hafi rofið trúnað um efni fundar þess sem haldinn var þegar hótanirnar bárust fyrst og eins væri undarlegt að barnsfaðirinn hafi skyndilega farið að senda hótanir, 13 mánuðum eftir að samskiptasamningurinn hefði verið gerður.

Barnsfaðirinn hafi ekki hætt hótunum eftir að samningnum var rift heldur hafi hótanirnar sífellt orðið „ógeðfelldari“. Í dómi segir:

„Sem dæmi megi nefna að í „messenger“-skilaboðum […] 2021 hafi barnsfaðir stefnanda hótað að nauðga eiginkonu samstarfsmanns hennar. Þá hafi barnsfaðir stefnanda jafnframt viðhaft ærumeiðandi ummæli í garð stefnda á opinberum vettvangi, auk þess sem hann hafi haft í hótunum gagnvart stjórnendum stefnda.“

Konan taldi ástæðu þess að barnsfaðirinn fór að senda hótanir vera þá að hún hafi sýnt honum mynd af samstarfsmanni sínum á heimasíðu vinnuveitandans. Hún hefði áður sagt honum frá því atviki sem leiddi til samskiptasamningsins. Hún hafi eins rætt við barnsföður sinn eftir fundinn bara til að fá hann til að hætta.

Dómari taldi þetta ekki trúverðugt og væri líklegt að hún hefði brotið samskiptasamninginn og rætt um meintu áreitnina við barnsföður sinn og svo greint honum frá efni fundar sem trúnaður átti að ríkja um. Þar með bæri hún ábyrgð á því að barnsfaðir hennar hóf að senda hótanir. Þar með hafi alvarleg staða verið komin upp á vinnustaðnum og vinnuveitanda því verið rétt að rifta ráðningarsamningi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir að Rússar ætli að hefja stórsókn 24. febrúar

Segir að Rússar ætli að hefja stórsókn 24. febrúar
Fréttir
Í gær

Reyndi að stinga lögregluna af á hlaupum

Reyndi að stinga lögregluna af á hlaupum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

ESB-ríkin ætla að þjálfa 15.000 úkraínska hermenn til viðbótar

ESB-ríkin ætla að þjálfa 15.000 úkraínska hermenn til viðbótar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan skaut fótalausan mann til bana – Myndband

Lögreglan skaut fótalausan mann til bana – Myndband
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fréttavaktin: Afskrifuð af skólakerfinu en er nú nemi við Háskólann í Flórída, uppbygging í Kerlingarfjöllum og Vetrarhátíð

Fréttavaktin: Afskrifuð af skólakerfinu en er nú nemi við Háskólann í Flórída, uppbygging í Kerlingarfjöllum og Vetrarhátíð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Edda Björk tapaði í Landsrétti: Þarf að láta synina frá sér innan þriggja vikna

Edda Björk tapaði í Landsrétti: Þarf að láta synina frá sér innan þriggja vikna