fbpx
Laugardagur 17.maí 2025
Fréttir

Átök, gjaldþrot og sakamál tengjast þessu húsi – Valdimar Jónsson ákærður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 3. nóvember 2022 19:00

Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 30. nóvember næstkomandi verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur Valdimar Jónssyni fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í rekstri félagsins Harrow House. Félagið átti og rak veitingastaðinn Primo Ristorante, á horni Þingholtsstrætis og Bankastrætis, en honum hefur nú verið lokað og félagið tekið til gjaldþrotaskipta.

Í aðdraganda stofnunar staðarsins urðu mikil átök, þar á meðal handalögmál, er eigendur húsnæðisins, feðgarnir Jón Ragnarsson og áðurnefndur Valdimar Jónsson, riftu leigusamningi við rekstraraðila veitingastaðarins Caruso, sem þarna var starfræktur á undan Primo Ristorante, og meinuðu starfsfólki staðarins inngöngu. Caruso er nú starfræktur í Austurstræti. Í einum af mörgum fréttum Vísis um málið sagði að feðgarnir hefðu tekið sér lögregluvald, farið inn á staðinn í leyfisleysi og skipt þar um skrár til að koma í veg fyrir að eigandi Caruso og starfsmenn kæmust þangað inn.

Félagið gjafmilt við föður eigandans

Jón Ragnarsson, faðir Valdimars, var einn eigenda Hótel Valhallar á Þingvöllum og var lengi kenndur við staðinn. Í febrúar á þessu ári var Jón dæmdur til að endurgreiða þrotabúi Harrow House um 13 milljónir króna. Vísir greindi einnig frá þessu. Í bókhaldi félagsins fundust millifærslur af reikningum Harrow House yfir á reikninga Jóns. Námu þær tæplega tíu milljónum. Auk þess hafði Jón tekið út vörur og þjónustu hjá félaginu fyrir tæpa milljón og einnig var eldri krafa á hendur Jóni í bókhaldi félagsins upp á 2,1 milljón króna, sem færð hafði verið á viðskiptamannareikning úr eldra bókhaldskerfi félagsins. Alls eru þetta rétt undir 13 milljónum.

Skýringar Jóns á greiðslunum voru ekki teknar gildar en hann sagði þær vera leigu til félags í hans eigu. Var ekki að finna neina samninga eða önnur gögn sem sönnuðu það.

Meint brot Valdimars

Sem fyrr segir verður fyrirtaka í skatta- og bókhaldslagamáli héraðssaksóknara gegn Valdimar Jónssyni í lok mánaðarins. DV hefur ákæru héraðssaksóknara undir höndum. Þar segir að Valdimar hafi offramtalið rekstrargjöld Harrow House árin 2016 og 2017 um samtals rétt tæplega 83,5 milljónir króna.

Ennfremur er Valdimar sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir árin 2017, 2018 og 2019 fyrir samtals rúmlega 20,8 milljónir.

Hann er sakaður um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta upp á rúmlega 7,5  milljónir.

Ennfremur er hann sakaður um að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2016 til 2019. Eru vanframtaldar tekjur sagðar vera alls tæplega 139 milljónir króna og vangreiddur tekjuskattur og útsvar tæplega 62 milljónir króna.

Héraðssaksóknari krefst þess að Valdimar Jónsson verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Húsið stendur autt og yfirgefið

Harrow House varð gjaldþrota árið 2020 og Primo Ristorante lokaði. Til skamms tíma var þar rekinn veitingastaður undir nafninu Ristorante Antico og þá merkingu má enn finna utan á húsi staðarins að Þingholtsstræti 1. Ljóst er að engin starfsemi er í húsinu, dyrnar læstar og ekkert líf inni. Í gegnum glugga má sjá stóla enn við borð og fyrir aftan barborðið hanga glös á hönkum og flöskur fylla hillur. Húsið geymir umbrotasögu úr íslenskum veitingarekstri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt