Frásögn móður tólf ára stúlku í Hafnarfirði sem lögð er í hrottalegt einelti hefur vakið mikla athygli. Myndbönd hafa gengið um samfélagsmiðla undanfarnar vikur sem sýna stúlkuna beitta líkamlegu ofbeldi af hópi stelpna á svipuðu reki.
Samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar segir að sveitarfélagið hafi ekki fengið upplýsingar þess efnis að samnemendur hafi verið í hópi geranda í þeirri alvarlegu árás sem myndbirt hefur verið í miðlunum. Bæjarfélagið fordæmir einelti og ofbeldi, og ljóst sé að upp sé kominn vandi sem íslenskt samfélag í heild þurfi að bregðast við.
Móðir stúlkunnar, Sædís Hrönn Samúelsdóttir, steig fram á samfélagsmiðlum um helgina og greindi frá því að dóttir hennar sé beitt hrottalegu einelti af hópi um 30 krakka. Þessi hópur hafi meðal annars hótað að beita dóttur hennar ofbeldi, hvatt hana til að taka eigið líf, uppnefnt hana og svo ráðist á hana.
Sædís Hrönn var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún greindi frá því að dóttir hennar væri nú á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að taka eigið líf.
Hún segir að ástandið hafi verið mjög slæmt í rúmt ár. Svo hafi krakkarnir byrjað að beita hana líkamlegu ofbeldi núna í haust. Þá segir hún skólann lítið hafa gert í málinu. Sædís Hrönn segir að bæði sé um að ræða samnemendur í Hraunvallaskóla og krakka úr öðrum skólum.
Fordæma allt ofbeldi og einelti
Ekki náðist í skólastjóra Hraunvallaskóla vegna málsins og á skiptiborði skólans var vísað á samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, Árdísi Ármannsdóttur.
Í skriflegu svari frá bæjarfélaginu er farið yfir það ferli sem fer í gang þegar „óæskileg hegðun eða vandamál“ koma upp.
Hafnarfjarðarbær fordæmir allt ofbeldi og einelti. Öll mál eru tekin alvarlega og um leið og eitthvað bendir til þess að óæskileg hegðun eða vandamál séu til staðar grípa skólayfirvöld inn í og setja mál í forgang og ferli. Í samráði og samtali við foreldra/forsjáraðila eru kallaðir til ráðgjafar og sérfræðingar frá ólíkum sviðum háð eðli hvers máls; skólafélagsráðgjafar, námsráðgjafar, sálfræðingar, þroskaþjálfar, barnalæknar og þau úrræði og þjónusta virkjuð sem við á í hverju tilfelli. Þegar við á er barnavernd strax fengin að borðinu.
Lögregla og sveitarfélag vinna náið saman í öllum málum og reglubundið eru haldnir fundir þar sem farið er yfir eðli mála, þróun og tölur. Umræða og vaxandi áhyggjur vegna ofbeldis- og áhættuhegðunar heilt yfir í íslensku samfélagi skilaði sér í eflingu samstarfshóps innan sveitarfélagsins í upphafi árs 2022 sem í sitja fulltrúi lögreglu, fulltrúi barnaverndar, fulltrúi Brúarinnar, sálfræðingur og fagstjóri frístundastarfs og forvarna. Fagfólk sem vinnur þvert á stofnanir að málefnum barna og ungmenna og kallar til aðra fagaðila eftir því sem við á. Þar er þróun mála rædd og þær breytingar sem virðast vera að eiga sér stað í samfélaginu gagngert til að fyrirbyggja með fræðslu og forvörnum. Samfélagið og starfsfólk bæjarins sem vinnur með börnum og ungmennum er á tánum og meðvitað um mikilvægi tilkynninga og snemmtækrar íhlutunar. Tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn og/eða fjölskyldu.
Átakanleg þróun
Þá er tiltekið að forsvarsmenn bæjarfélagsins muni ekki tjá sig sérstaklega um þetta einstaka mál heldur aðeins almennt um ferli og viðbrögð þegar upp koma alvarlegt mál.
Þá segir ennfremur í svari frá bænum:
Í ljósi umræðunnar um þetta einstaka mál þá er rétt að árétta sérstaklega að sveitarfélagið hefur ekki fengið upplýsingar þess efnis að samnemendur hafi verið í hópi geranda í þeirri alvarlegu árás sem myndbirt hefur verið í miðlunum. Þessi átakanlega þróun virðist vera landlæg og upp kominn vandi sem íslenskt samfélag í heild þarf að bregðast við.
___________________
Ef þú eða einhver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfsvígshugsanir að þá er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 og í gegnum netspjall þeirra. Þar eru þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sem svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Eins er hægt að leita til Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.