Einn þriggja sakborninga í morðmálinu í Ólafsfirði hefur verið látinn laus. Landsréttur tók til greina kröfu þess aðila og samþykkti ekki gæsluvarðhald yfir honum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Ekki er vitað um hvern sakborninganna þriggja ræðir. Sakborningarnir þrír eru tvær konur og einn karlmaður. Önnur konan er eiginkona hins látna, Tómasar Waagfjörð, en hin konan var gestgjafi þar sem atburðurinn átti sér stað, en það var í íbúð sem hún leigir. Karlmaður sem er á meðal sakborninga var í gestkomandi í íbúðinni. Hann er vinur eiginkonu Tómasar en þeir tveir, maðurinn og Tómas höfðu deilt harkalega. Atök brutust út rétt eftir að Tómas hélt reiður í samkvæmið frá heimili sínu, sem er í sömu götu, til að sækja eiginkonu sína.
Samkvæmt heimildum DV er það önnur konan sem hefur verið látin laus en DV hefur ekki upplýsingar um hvort það er gestgjafinn eða eiginkona Tómasar.
Í tilkynningu lögreglu segir:
„Skýrslutökur yfir sakborningunum hafa staðið yfir í gær og í dag og þá hefur réttarkrufning farið fram á hinum látna. Ekki er vitað hvenær niðustöður hennar liggja fyrir en það getur hlaupið á nokkrum vikum.
Rannsókn lögreglu miðar að því að leiða í ljós hvað átti sér stað í umrætt sinn en enn eru ýmsir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá. Ekki er hægt að upplýsa frekar um einstaka rannsóknaraðgerðir á þessu stigi en allra rannsóknaraðferða er beitt sem geta varpað ljósi á málið.“
Ath. Fréttin hefur lítillega verið uppfærð