Matthías Tryggvi Haraldsson, fjöllistamaður, hefur bæst í hóp þeirra sem harðlega gagnrýna Menntaskólann við Hamrahlíð fyrir viðbrögð sín við kynferðisbrotamálum nemenda í skólanum. Hann segir rektor og áfangastjóra skólans að girða sig í brækur og biðja þolendur afsökunar – eða segja starfi sínu lausu.
Undanfarna daga hafa nemendur við skólann, einkum stúlkur, harðlega mótmælt því að meintum kynferðisbrotamönnum sé heimilað að sækja tíma í skólanum. Upphafið má rekja til þess að útprentað blað var hengt upp í skólanum þar sem nemandi lýsti yfir gífurlegri óánægju með að þurf að mæta nauðgara á göngum skólans.
Tónlistarkonan Brynhildur Karlsdóttir vakti mikla athygli í gær fyrir grein sem hún ritaði um málefni MH en hún greindi frá því að fyrir rúmum áratug var henni nauðgað af vini sínum og skólabróður í MH. Þegar hún leitaði til skólayfirvalda mættu henni lokaðar dyr. Skólastjórnendur hafi ekki boðið betur en að hún gæti sjálf skipt um skóla. Brynhildur hafi í kjölfarið flosnað upp úr námi.
Besta vinkona hennar hafi einnig verið nauðgað með hrottalegum hætti og þurft að sækja tíma með ofbeldismanni sínum og mæta honum á göngum skólans. Sú vinkona hafi hvergi fengið réttlæti og enginn var látinn axla ábyrgð á því ofbeldi sem hún varð fyrir 17 ára gömul. Hún tók eigið líf árið 2019.
Nú skrifar Matthías Tryggvi, unnusti Brynhildar, grein sem birtist rétt í þessu hjá Vísi.
„Þessa dagana ólgar bylting innan veggja Menntaskólans við Hamrahlíð, þar sem ég á systur og mágkonu meðal nemenda, þar sem barnsmóðir mín og unnusta, hún Brynhildur mín, var í námi þegar henni var nauðgað fyrir meira en tíu árum“.
Matthías segir að bylting sé mikilvæg og nauðsynlegt sé að hlusta á þá nemendur sem keyra byltinguna áfram „af hugrekki og réttsýni.“
Sjá einnig: Nemandi í MH:„Ég vil ekki fokking nauðgara í skólanum mínum“
Krafa nemenda sé skýr – skólastjórnendur eigi að stíga fast til jarðar og standa með þolendum. Annað hafi þó sýnt sig á fundi skólastjórnenda með nemendum í gær og í yfirlýsingu skólans til fjölmiðla. Þar kom fram að innan skólans væri aðgerðaráætlun sem væri virkjuð er kynferðisofbeldi kæmi upp og hafi skólastjórnendur á mánudag fengið óháðan fagaðila til ráðgjafar um viðbrögð og aðgerðir. Síðan hafi skólastjórnendur fundað með nemendum í gærmorgun. Nemendur voru margir óánægðir með fundinn þar sem þeir fengu ekki færi á að spyrja spurninga og engar línur lagðar með framhaldið.
Sjá einnig: Yfirlýsing frá MH:„Skólastjórnendur líta á mál sem varða kynferðisofbeldi mjög alvarlegum augum“
Matthías skrifar:
„Þess vegna eru vonbrigðin, sem ég finn í dag, ólýsandi.
Þeir heita Steinn Jóhannsson, rektor skólans, og Pálmi Magnússon, sem gegnir starfi áfangastjóra, sem hafa gjörsamlega skitið upp á bak í þessum málum. Klúðrið hefur bersýnilega gengið á í samfleytt meira en tíu ár svoleiðis að vanhæfni þeirra bergmálar í sársaukaþrungnum sögum fjölda þolenda, þar á meðal Brynhildar minnar, Elísabetar vinkonu sem tók sitt eigið líf og enn í dag í mótmælum nemenda.“
Matthías segir að eitt nýlegt dæmi séu viðbrögð þeirra Steins og Pálma við byltingunni. Þeir hafi af „þvílíkri vanvirðingu“ dirfst að kalla viðburðinn „hysteríu„.
„Slík ummæli afhjúpa heilan heim úreltra viðhorfa og sýna að þeir eiga ekkert erindi í þessa viðkvæmu umræðu, hvað þá að vinna með ungmennum. Gleymum því ekki að meira en 70 prósent þeirra sem leita til Stígamóta urðu fyrst fyrir ofbeldi á menntaskólaaldri, ef ekki fyrr. Finnst Pálma 70 prósent þeirra sem leita til Stígamóta vera hysterísk?“
Kannski sé sú spurning ósanngjörn en stjórnendur hafi þó ekkert gert til að svara henni. Þeir neiti að tjá sig og „snubbótt“ yfirlýsing um verkferla sé enginn sigur.
„Þá gat Steinn rektor varla nefnt orðið kynferðisofbeldi á nafn á skólafundinum, sem átti að vera sönnun þeirra um verkferla og fagmennsku. Þess í stað var rektorinn að sögn áreiðanlegra heimildarmanna minna „eins og kúkur“. Skólastjórnendur MH, girðið ykkur í brók, biðjið þolendur afsökunar eins og þið meinið það eða víkið úr starfi.“
Uppfært 14:30 – Brynhildur hefur nú fengið afsökunarbeiðni frá rektor MH og henni jafnframt boðið á fund til að ræða um hvernig betur mætti taka á málum sem hennar innan skólans.
Sjá einnig: Brynhildur hefur fengið afsökunarbeiðni frá rektor MH – „Ótrúlega áhrifamikið“