Menntaskólinn við Hamrahlíð var að gefa út yfirlýsingu rétt í þessu vegna óánægju nemenda við að meintur kynferðisbrotamaður sé meðal þeirra. Skólastjórnendur segjast líta málið alvarlegum augum og að aðgerðaráætlun skólans hefur verið virkjuð.
Sjá einnig: Nemandi í MH: „Ég vil ekki fokking nauðgara í skólanum mínum“
„Í ljósi umfjöllunar um kynferðisofbeldi vill Menntaskólinn við Hamrahlíð koma eftirfarandi á framfæri:
Skólastjórnendur líta á mál sem varða kynferðisofbeldi mjög alvarlegum augum. Þegar slík mál hafa komið upp er aðgerðaráætlun skólans virkjuð og unnið samkvæmt henni. Skólastjórnendur fengu strax í gær óháðan fagaðila til ráðgjafar um viðbrögð og aðgerðir vegna ábendinga nemenda. Skólastjórnendur funduðu ásamt ráðgjafa með nemendum vegna málsins í dag. Unnið verður áfram í málinu eins og aðgerðaáætlun gerir ráð fyrir.
Þá hafa stjórnendur skólans verið í samtali við stjórn nemendafélagsins og formann skólanefndar.
Fyrir hönd MH,
Steinn Jóhannsson.“
Nemendur skólans hafa látið í sér heyra og mótmælt því að nemandi – sem er sagður hafa verið kærður fyrir nauðgun – fái að vera í skólanum.
„Bara ein spurning Menntaskólinn við Hamrahlíð… viljiði gera eitthvað í þessu eða bara trúa því að þetta setur aðra nemendur í þessum skóla í hættu?“ segir á blaði sem var hengt upp í skólanum í gær. Það var einnig skrifað á spegil skólans með varalit: „Ég vil ekki fokking nauðgara í skólanum mínum.“