Rétt fyrir síðustu mánaðamót var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn stúlku sem fædd er árið 2002 en málið varðar meint ofbeldi gegn lögreglumanni.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt fimmtudagsins 22. apríl 2021 er stúlkan var á 19. ári. DV hefur ákæru málsins undir höndum en þar er stúlkunni gefið að sök að hafa utandyra, við götuna Sogaveg í Reykjavík, sparkað í klof lögreglumanns sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á vinstra eista.
Er þess krafist að stúlkan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Meint brot varðar 1. málsgrein 106. greinar almennra hegningarlaga, en hún hljóðar svo:
„Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta … 1) fangelsi allt að 6 árum. [Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.] 2) [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.] 3)“