fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Sverrir ber sig vel eftir handtöku í Ungverjalandi – Hefði „drullað á sig af hræðslu“ á fyrsta deginum

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 28. september 2022 20:00

Til vinstri: Sverrir Sverrison - Til hægri: Ungverskir lögreglumenn - Mynd/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Sverrisson býr í Ungverjalandi og lenti í því að vera handtekinn þar í landi síðastliðinn mánudag en lögreglan grunaði hann um að vera með falsað ökuskírteini. Sverrir hélt fram sakleysi sínu þar sem hann vissi að ökuskírteinið hans væri ekki falsað en hann segir í samtali við blaðamann að upplifunin af ungversku lögreglunni hafi verið góð í alla staði.

Forsaga málsins er sú að Sverrir fór með bílinn sinn í skoðun í sumar. Þar fékk Sverrir að vita að allt væri í toppstandi fyrir utan smá ryð í sílsum undir bílnum. Hann var því beðinn um að laga bílinn og koma svo aftur með bílinn í skoðun þegar því væri lokið. 

Það er þó hægara sagt en gert að láta laga bílinn í Ungverjalandi þegar maður talar ekki ungversku. Sverrir segir að dæmi séu um að útlendingar þar í landi séu rukkaðir um allt að 100 þúsund krónur á tímann fyrir einfaldar viðgerðir. En Sverrir lætur ekki plata sig svo auðveldlega og hefur hann því staðið í ströngu undanfarna mánuði við að finna bifvélavirkja sem rukkar sanngjarnt gjald fyrir viðgerðina sem bíllinn hans þarf.

Á mánudaginn kom svo að því að Sverrir var búinn að finna blikksmiðju sem ætlaði að redda málunum fyrir hann. Sverrir fór því í bíltúr ásamt góðum vini sínum og keyrði í átt að blikksmiðjunni. Það gekk þó ekki alveg því þeir fundu ekki blikksmiðjuna, þeir stilltu því GPS-tækið en það leiddi þá út í einhverja vitleysu. Þeir gáfust því upp á því að nota GPS-tæknina og ætluðu að reiða sig á gömlu góðu höfuðáttirnar. 

Handtekinn vegna gruns um skjalafals

Það var þá sem þeir keyrðu framhjá lögreglubíl, á löglegum hraða, en eftir smá stund var lögreglubíllinn engu að síður kominn „í rassgatið“ á bíl Sverris og blikkandi ljósin komin á fullt. Sverrir keyrði þá út í kant og bauð lögreglumönnunum góðan daginn á ensku. „Ég var beðinn um ökuskírteini, ein fór með skírteinin inn í lögreglubíl en hinar báðu um öll skrifleg gögn, afsal af bílnum, tryggingar, ég hafði ekki undan að sýna þeim pappíra,“ segir Sverrir.

„Svo spurðu þeir út af hverju ég væri ekki búinn að fara með bílinn í skoðun sem ég átti að gera í júní, ég sagðist hafa farið í júlí í skoðun en allt í topplagi nema smá ryð í sílsum undir bílnum og ég rekinn í burtu og beðinn að koma aftur með bílinn þegar þetta væri komið í lag, ég væri búinn að leita af blikksmiðju í 3 mánuði. Þessir tveir [lögreglumenn] voru mjög almennilegir og tóku mig trúarlegan eftir að ég sýndi þeim nótur af verkstæðinu, ég var farin að hugsa, málið leyst.“

En málið var ekki leyst því þá kom þriðji lögreglumaðurinn, sá sem tók ökuskírteini Sverris. Sá sagði að ökuskírteinið væri falsað og bað Sverri um að blása í áfengismæli. „Sem ég gerði, að sjálfsögðu fannst ekkert, en hann sagði mér að koma úr bílnum,“ segir Sverrir og í kjölfarið var honum sagt að koma með í lögreglubílinn.

„Þú kemur með í lögreglubílnum og vinur þinn keyrir á eftir okkur á lögreglustöðina,“ segir Sverrir að lögreglan hafi sagt við sig. Þá sagði hann við lögregluna að vinur hans mætti ekki keyra bíl sökum lélegrar sjónar. „Eftir smá tal á ungversku sem ég skildi ekki var ákveðið að ég mætti keyra eftir lögreglubílnum með eina löggu í aftursætinu.“

Hefði „drullað á sig af hræðslu“ á fyrsta deginum

Þegar á lögreglustöðina var komið settist Sverrir og vinur hans niður í setustofunni og fóru að gera grín að þessu öllu saman á íslensku. Þá var Sverri skipað að standa upp og var hurð opnuð inn á gang með fangelsisklefum þar sem Sverri var boðið að setjast við dyrnar. „Þarna átti að hræða skjalafalsarann, tveir lögreglumenn stóðu yfir mér, ég held að öll lögreglustöðin hafi verið farin að skoða minn bakgrunn, svo ég fór að fikta í símanum þá sagði önnur löggan: Ekki snerta símann, þú ert grunaður um fölsun á ökuskírteini.“

Sverrir segir að sér hafi ekki verið neitt brugðið enda vissi hann að skírteinið sitt væri ekki falsað. Þó segir Sverrir að ef hann hefði verið handtekinn þegar hann var nýkominn til Ungverjalands þá hefði hann ábyggilega orðið skelkaður. „Ef þetta hefði verið fyrsti dagurinn í Ungverjalandi þá hefði ég örugglega drullað á mig af hræðslu,“ segir hann en eftir að hafa séð vinnubrögðin hjá lögreglunni undanfarin 5 ár hafði hann engar áhyggjur. 

„Ef eitthvað skeður þá eru aldrei nein læti. Þeir [lögreglumennirnir] koma alltaf bara í hóp, leysa málið og aldrei slagsmál eða neitt ofbeldi, það er ekki til hérna. Það er bara allt til fyrirmyndar hérna.“

Á lögreglustöðinni byrjaði Sverrir að tala við lögreglumennina sem voru að passa hann þrátt fyrir að þeir hafi lítið vilja tala við hann í byrjun enda um „stórhættulegan glæpamann“ að ræða. Sverrir hafði gaman að þessu öllu saman og dáðist að vinnubrögðum ungversku lögreglunnar sem að hans sögn var bæði róleg og yfirveguð allan tímann. 

„Lögreglan hérna er alveg frábær, hún stendur sig rosalega vel,“ segir Sverrir í samtali við blaðamann en hann skilur vel að lögreglan hafi ákveðið að bregðast við þar sem það sé alvarlegt að vera með falsað ökuskírteini. „Þeir voru mjög almennilegir allan tímann, þó svo að ég væri grunaður um skjalafals þá komu þeir mjög vel fram við mig. Ég er búinn að vera hér í tæp fimm ár og maður er búinn að sjá vinnubrögðin hjá lögreglunni hérna, það er allt til fyrirmyndar.

Þá segir Sverrir að honum finnist lögreglan í Ungverjalandi vera mun betri en hér á Íslandi. „Miklu miklu betri, mér finnst ég vera miklu öruggari hérna heldur en í Reykjavík. Það er bara lögga hérna á hverju einasta horni, lögreglubílar að keyra fram og til baka – ef maður tekur hér bíltúr þá er lögga á öðru hverju horni sem er búin að stoppa einhvern.“

Allir brosandi í lokin

Þegar Sverrir var búinn að vera á lögreglustöðinni í rúman klukkutíma fór málið að skýrast. Þá skildi lögreglan loksins að ökuskírteinið væri bara gamalt. Grunsemdir hennar vöknuðu nefnilega þegar hún sá að Sverrir fékk ökuréttindi fyrir nánast öll ökutæki með einu og sama prófinu, eins og tíðkaðist hér á landi á árum áður. Slíkt er ekki gert í Ungverjalandi en þar stendur dagsetningin á hverju prófi fyrir sig.

Þegar lögreglan náði að leysa þetta mál var Sverrir að sjálfsögðu laus allra mála. „Ég veit ekki hvert þeir hringdu og hvernig þetta leystist en eftir svona einn og hálfan tíma, kannski tvo þá voru þeir búnir að komast að því að þetta væri löglegt. Svo tók afsökunarbeiðnin og skýrslan aðeins lengri tíma,“ segir Sverrir sem fékk skriflega afsökunarbeiðni frá lögreglunni. „Ég skildi það svoleiðis að þeir báðu mig afsökunar, við vorum allir brosandi í lokin.“

Sverrir lítur á þennan atburðaríka dag sem ævintýri enda ákvað hann fyrir mörgum árum að taka mótlæti sem gjöf. „Ég tók því bara svoleiðis strax því ég vissi að ég hafði ekki gert neitt af mér. Eina sem var að er bíllinn sem er óskoðaður af því ég er enn að leita að blikksmiðjunni, ég er að fara að hitta einn mann næsta mánudag – ég vona að það leysist þá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg