„Það er í kjölfar lægðarinnar þegar kólnar ört og kalda loftið nær að steypast fram af brúnum fjalla og Vatnajökuls. Spá fyrir vind í 850 hPa (1.250 m) kl. 15 á morgun er með þeim ljótari. Það „tvíflaggar“ á tveimur stöðum, það er 100 hnúta vindur sem samsvarar meðalvindi upp á rúmlega 50 m/s í þessari hæð,“ segir Einar í færslunni.
Þá vekur hann athygli á því að Veðurstofan sé búin að gefa út appelsínugula viðvörun á þessum slóðum. „Mikill viðbúnaður í gangi vegna þessa eins og gefur að skilja,“ segir hann svo.
Einar er ekki eini veðurfræðingurinn sem hefur áhyggjur af veðrinu á morgun. Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands er fólk hvatt til að tryggja lausamuni. „Veður í september hefur fram að þessu hefur verið rólegt og því verður veðrið um helgina mikil viðbrigði og mikilvægt að láta það ekki koma sér á óvart. Íbúar á landinu eru hvattir til huga að sínu nærumhverfi og gera ráðstafanir. Til dæmis þarf að koma sumarhúsgögnum í skjól sem og öðrum hlutum sem geta fokið,“ segir í hugleiðingunum.
„Það má því búast við miklum sviptingum í veðrinu um helgina, útlit er fyrir óveður í tveimur þáttum. Í dag eru það hlýindi og suðvestan hvassviðri eða stormur. Á morgun enn sterkari norðvestanátt og kólnar, þó ber að árétta að vestanvert landið virðist ætla að sleppa við óveður á morgun.“