Líkamsárás átti sér stað um klukkan 1 í nótt við Norðlingaskóla í Árbænum. Hópur unglinga var á vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið en þá var árásaraðili farinn. Drengurinn sem varð fyrir árásinni var 17 ára gamall og hlaut hann áverka á höfði. Var drengurinn því fluttur á bráðadeild til aðhlynningar. Sökum þess að drengurinn var undir 18 ára var hringt í móður hans sem ætlaði sér að mæta til drengsins á bráðadeildina. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu.
Þetta var ekki eina líkamsárásin sem lögreglunni var tilkynnt um í nótt en önnur líkamsárás átti sér stað í 101 Reykjavík. Þar var maður sem sló síma úr hendi annars manns en þegar eigandi símans ætlaði að ná í hann var hann ítrekað sleginn í andlitið. Hlaut hann minniháttar áverka vegna þessa.
Þá segir í dagbókinni frá slagsmálum milli tveggja manna, ökumanns og gangandi vegfaranda. Slagsmálin áttu sér stað í 105 Reykjavík í gærkvöldi eftir að gangandi vegfarandinn gekk í veg fyrir bíl ökumannsins. Ökumaðurinn fór þá út úr bílnum til að ræða við manninn en þær viðræður enduðu í slagsmálum. Ökumaðurinn er þá sagður hafa sótt prik í bílinn og ógnað gangandi vegfarandanum með því. Ökumaðurinn fékk sár á augabrún og fékk aðhlynningu á bráðadeild. Lögregla tók skýrslur af báðum mönnunum.
Nokkrar bifreiðar voru stöðvaðar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið þar sem ökumenn voru grunaðir um að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Umferðaróhapp átti sér svo stað í Árbænum um kvöldmatarleytið í gær en ökumaðurinn sem olli slysinu er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og að hafa fíkniefni í vörslu sinni.