Frans páfi lagði í postullega utanlandsferð til Kanada frá Róm klukkan 09:16 að staðartíma í morgun. Á leið sinni til Kanada ákvað páfinn að senda kveðju til þeirra landa sem hann flaug yfir. Samkvæmt Vatican News er páfinn búinn að senda kveðju til Ítalíu, Sviss, Frakklands, Bretlands og Íslands úr flugvélinni.
Kveðjurnar voru allar nokkuð svipaðar, hann blessaði þjóðir landanna sem hann flaug yfir og sendi kveðjur á leiðtoga þeirra. „Ég sendi kærar kveðjur til yðar og þjóðar þinnar, saman með bænum til guðs almáttugs og ég bið hann um að blessa ykkur öll með sameiningu og frið,“ sagði páfinn til að mynda í kveðjunni til Sviss. Hann sendi forsetum Ítalíu, Sviss, Frakklands og Íslands kveðju en kveðjan til Bretlands var stíluð á Elísabetu drottningu.
Kveðjan til Íslands var því stíluð á Guðna Th. Jóhannesson. „Ég sendi kveðjur og heillaóskir til yðar og þjóðar þinnar er ég flýg yfir Ísland á leið minni til Kanada, með bænum um að guð muni blessa alla þjóðina með gjöfum sínum, æðruleysi og gleði.“
Áætlað er að páfinn lendi rétt fyrir hádegi í Kanada en þar munu þau Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Salma Lakhani, aðstoðarríkisstjóri Alberta, taka á móti honum. Eftir það mun páfinn taka restina af deginum í að hvíla sig en fyrstu opinberu heimsóknir hans í Kanada hefjast á morgun.