fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Taska Önnu týndist fyrir 15 dögum síðan – „Manni líður eins og það sé bara verið að niðurlægja mann“

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 15. júlí 2022 10:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Sæunn Ólafsdóttir kvikmyndagerðarkona segir farir sínar ekki sléttar eftir að Icelandair týndi farangri hennar fyrir 15 dögum síðan. Anna var að flytja til Spánar og ákvað að fljúga með Icelandair þangað, með millilendingu í París. Þar sem Anna var að flytja þá tók hún mikið af verðmætum með sér í flugið sem hún vildi hafa með sér í nýja lífinu á Spáni.

„Dýrar hlaupabuxur, klifurskór, kápan mín, íþróttaföt, stígvél og skópör, besti hnífurinn minn, mini matvinnsluvélin mín sem fer með mér út um allt svo ég geti eldað það sem mér dettur í hug og búið til prótínísinn sem ég elska á morgnanna. Google home, snyrtivörur fyrir tugi þúsunda, föt sem mér þykir vænt um, erfðagripir sem mig langaði að hafa með mér í nýja lífi mínu á Spáni, uppáhaldsbollinn minn, lyf og lækningavörur og ótalmargt fleira sem ég hef ekki tölu á, er ómetanlegt og hefur hátt verðgildi í heildina, er að finna í 26kg töskunni minni sem ég hef ekki fengið neinar fregnir af og var tékkuð inn af Icelandair í Keflavík, með millilendingu í París með seinni legg með Air France til Barcelona þann 1. júlí,“ segir Anna í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gær.

Anna segir í færslunni að sér finnist glatað að þurfa að fara þá leið að fjalla um þetta „andstyggilega mál“ á opinberum vettvangi en hún finnur sig knúna til þess að gera það eftir að hafa ekki fengið svör í viku. Þá segir hún að þetta hafi haldið sér vöku í að verða tvær vikur.

„Ég neita einfaldlega að láta koma svona fram við mig og langar að heyra hvort fleiri hafi lent í svipuðu og fá ráðleggingar ef einhverjir eiga. Icelandair, ég bíð eftir að heyra frá ykkur varðandi þetta mál, þolinmæði mín er fullkomlega á þrotum.“

Ekkert heyrt í viku

Í samtali við DV segir Anna að hún hafi ekkert heyrt frá Icelandair síðan hún birti færsluna í gær, raunar hefur hún ekkert heyrt í flugfélaginu síðan fyrir um viku síðan. „Síðast heyrði ég í þeim fyrir helgi, þá náði ég á þjónustufulltrúa hjá farangursdeildinni, það var fjórða manneskjan sem ég talaði við þar. Hún virtist vera einhvern veginn meira til í að hlusta á mig og ég hélt að núna myndi allt í einu eitthvað gerast,“ segir hún í samtali við blaðamann.

„Ég fékk annað netfang en ég hafði verið í samskiptum við og hún bað mig um að biðja um sig sérstaklega. Ég sendi allar upplýsingar, öll númer sem ég er með, bókunarupplýsingar og svoleiðis. Ég sendi það þarna í eitt skipti fyrir öll á það netfang og bið sérstaklega um þennan þjónustufulltrúa en svo heyri ég ekki neitt. Ég sendi svo aftur og svo aftur, þannig ég er búin að senda þrisvar sinnum á það netfang. Þetta var fyrir helgi þannig það er komin vika síðan þetta var.“

Telur að tjónið skipti hundruðum þúsunda

Anna furðar sig á því að fyrirtækið taki ekki ábyrgð á því að hafa týnt töskunni en henni finnst eins og ábyrgðinni sé kastað á milli. „Manni líður eins og það sé bara verið að niðurlægja mann, þetta er ógeðslega niðurlægjandi og fáránlegt. Þeir eru með dótið manns í haldi, eða þú veist einhver er með það en málið er að fyrirtækið er ekki að taka ábyrgð,“ segir hún.

„Þetta var flug með millilendingu en er bókað í gegnum þá, ég er með flugmiða alla leið í gegnum þá þó ég sé að fara í gegnum París og sé að taka seinni legginn með AirFrance. Sem viðskiptavinur þá hefði ég haldið að það væri alveg eðlilegt að það séu þeir sem eiga að díla við þetta mál því það eru þeir sem ég átti í viðskiptum við.“

Anna telur að tjónið vegna týndu töskunnar telji nokkur hundruð þúsund en auk þess er um mikið af ómetanlegum munum í töskunni, til dæmis erfðagripir og fleira. „Ég er að flytja til Spánar og var að taka með mér heila tösku af dóti, mikið af mikilvægum hlutum,“ segir hún.

„Ég var í rauninni ekki að fara beint í frí því ég er með íbúð á Spáni og á dót þar þannig ég komst alveg ágætlega af þannig séð. En ef ég hefði verið að fara í frí í 10 daga og ég fékk ekki töskuna allan þennan tíma, það hefði verið hræðilegt og fólk er að lenda í því líka. Þetta er sturlað, auðvitað skilur maður að mistökin gerast en að það sé ekki einhvers konar skýrt ferli og að viðskiptavininum sé svarað á samræmdan hátt. Það er það sem er svo ruglað í þessu og deildirnar eru að kasta manni á milli. Það er alveg óskiljanlegt. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.“

DV reyndi að ná sambandi við Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, en ekki bárust svör frá henni við vinnslu fréttarinnar.

Færsluna sem Anna birti má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala