fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hættuleg stigmögnun deilna Rússa og Litháa – Gæti orðið kveikjan að þriðju heimsstyrjöldinni

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 23. júní 2022 05:47

Kalíningrad. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Litháar hafa takmarkað vöruflutninga til og frá Kalíningrad sem er rússneskt yfirráðasvæði við Eystrasalt. Staða Kalíningrad er mjög sérstök því svæðið er ekki landfast við aðra hluta Rússlands, Litháen og Pólland umkringja það og það liggur út að Eystrasalti. Eystrasaltsfloti Rússa hefur meðal annars bækistöð þar.

Ákvörðun Litháa byggist á þeim refsiaðgerðum sem Evrópusambandið beitir Rússa vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Megnið af vöruflutningum til og frá Kalíningrad fara um Litháen og Pólland eða sjóleiðis. Í vikunni ákváðu Litháar síðan að framfylgja refsiaðgerðum ESB að fullu hvað varðar vöruflutninga til Kalíningrad. Það er því ekki lengur hægt að flytja vörur á borð við kol, málma, sement og byggingarefni í gegnum Litháen til og frá Kalíningrad. Fólksflutningar eru heimilir. Þessir flutningar fara fram með járnbrautarlestum.

Lest frá Kalíningrad kemur til Litháen. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

 

Rússar hafa brugðist ókvæða við ákvörðun Litháa og talskona rússneskra stjórnvalda sagði í gær að gripið verði til gagnaðgerða og þær verði ekki eingöngu diplómatískar. Hún útskýrði þetta ekki nánar er úr orðum hennar má lesa hótun um beitingu hervalds. Það gæti í versta falli endað með því að NATÓ dragist inn í málið og úr verði átök sem geti orðið kveikjan að þriðju heimsstyrjöldinni.

Sergei Ryabkov, varautanríkisráðherra Rússlands, varaði NATÓ og Bandaríkin við því í gær að nota fimmtu grein NATÓ-sáttmálans í tengslum við það sem er að gerast í samskiptum Rússlands og Litháen. Fimmta greinin kveður á um að árás á eitt bandalagsríki sé árás á þau öll og skuldbinda aðildarríkin sig til að koma því ríki, sem ráðist er á, til aðstoðar.

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði á þriðjudaginn að fimmta greinin sé ófrávíkjanleg og það gildi einnig varðandi hugsanlegar aðgerðir Rússa gegn Litháen. Bandaríkin og NATÓ muni koma Litháen til aðstoðar ef ráðist verður á landið.

Kybartai landamærastöðin á landamærum Litháen og Kalíningrad. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

 

Norska ríkisútvarpið segir að samkvæmt því sem Anton Alikhanov, héraðsstjóri í Kalíningrad, segi þá séu þær vörur, sem eru á bannlista ESB, um 40 til 50% af þeim vörum sem eru fluttar með járnbrautarlestum í gegnum Litháen til Kalíningrad.

Litháar höfðu áður lokað lofthelgi sinni fyrir rússneskum flugvélum en það gerðu þeir þegar ESB tók ákvörðun um að loka lofthelgi sinni fyrir rússneskum flugvélum.

Suwalki-hliðið

Eins og áður sagði þá er Kalíningrad umlukið Póllandi og Litháen. Hvíta-Rússland liggur síðan að Póllandi og Litháen en Hvíta-Rússland er náið bandalagsríki Rússlands.

Á milli Litháen og Póllands er hið svokallaða Suwalki-hlið sem er aðeins 100 km á breidd þar sem það er þrengst. Þetta hlið hefur lengi þótt vera veiki punkturinn í vörnum Eystrasaltsríkjanna og Póllands.

Vangaveltur hafa verið uppi um hvort Rússar muni gera skyndiárás á Suwalki-hliðið frá Hvíta-Rússlandi og Kalíningrad og reyna að koma á landtengingu á milli Kalíningrad og Hvíta-Rússlands. Margir telja þó að þeir geti það ekki eins og staðan er núna því þeir eigi fullt í fangi með að berjast í Úkraínu og hafi ekki burði til að mæta NATÓ við Eystrasalt. Nokkur þúsund hermenn frá ýmsum NATÓ-ríkjum hafa verið sendir til Eystrasaltsríkjanna til að styrkja varnir þeirra. NATÓ er einnig með 40.000 manna hraðsveit sem verður hægt að senda með skömmum fyrirvara til Eystrasaltsríkjanna eða Póllands.

En ef Rússar láta til skara skríða hernaðarlega er ekki ólíklegt að til stríðs komi á milli þeirra og NATÓ og það gæti í sjálfu sér endað með þriðju heimsstyrjöldinni.

Þetta veldur að vonum áhyggjum hjá mörgum og sérstaklega þegar haft er í huga að möguleikar Rússa á að þrýsta á Litháen eftir diplómatískum leiðum eru mjög takmarkaðir. Litháar hafa hætt innflutningi á rússnesku gasi, olíu og rafmagni og hafa kallað sendiherra sinn heim frá Moskvu og rekið þann rússneska úr landi.

Ekki dregur úr spennunni á svæðinu að Finnar og Svíar ganga væntanlega í NATÓ innan skamms.

Norska ríkisútvarpið segir að stóra spurningin sé því hvort hægt sé að finna lausn á málinu þar sem Litháar fái til dæmis undanþágu að hluta frá refsiaðgerðum ESB. En um leið er bent á að miðað við spennuna sem er á milli NATÓ og Rússlands sé ekki margt sem bendi til að það sé hægt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“