Icelandair lagði nú rétt í þessu upp í sitt fyrsta flug til Raleigh-Durham í Norður-Karólínufylki Bandaríkjanna. Flogið verður fjórum sinnum í viku á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum frá 12. maí til 30. október.
Raleigh og Durham eru nágrannaborgir í Norður-Karólínu og hafa þær vaxið hratt undanfarin ár. Norður-Karólína hefur upp á margt að bjóða, spennandi söfn, fallegar gönguleiðir, glæsilega golfvelli og suðrænan sjarma. Á svæðinu eru einnig sterk fyrirtæki í tæknigeiranum og háskólar á heimsmælikvarða. Icelandair mun bjóða tíðar ferðir til og frá Íslandi og öflugar tengingar áfram til áfangastaða félagsins í Evrópu. Félagið flýgur á þessu ári til 14 áfangastaða í Norður-Ameríku og 30 í Evrópu.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair: „Eftir því sem áhrif heimsfaraldursins hafa dvínað höfum við byggt flugstarfsemina hratt upp. Á árinu höfum við hafið flug á ný til fjölda kunnuglegra borga en nú kynnum við til sögunnar nýjan áfangastað í fyrsta sinn síðan 2018. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og Raleigh-Durham er áfangastaður sem smellpassar inn í leiðakerfi okkar. Norður-Karólína er spennandi svæði fyrir Íslendinga að heimsækja auk þess sem flug okkar opnar mjög hentugar tengingar fyrir íbúa Norður-Karólínu bæði til Íslands og áfram til fjölda áfangastaða í Evrópu.“