Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að togarinn hafi fengið olíu á föstudaginn frá Skeljungi eftir að Olís hafði neitað að selja honum olíu.
Haft er eftir Frosta Ólafssyni, framkvæmdastjóra Olís, að félagið hafi haft þá stefnu að afgreiða ekki rússneska togara eftir innrásina í Úkraínu og því hafi verið einfalt val að segja nei þegar beðið var um olíu fyrir skipið. „Þetta er ákvörðun sem við tókum snemma í samvinnu við okkar móðurfélag, Haga. Þótt formlega hafi ekki verið rautt ljós á svona viðskipti töldum við best að selja enga olíu til þessara aðila, sem er líka í anda viðskiptaþvingana,“ sagði Frosti.
Þegar leitað var til Skeljungs um olíu til kaups fyrir skipið voru viðbrögðin önnur því félagið seldi olíu til skipsins í gegnum íslenskan viðskiptavin. Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, staðfesti að togarinn hafi fengið afgreiðslu. Þegar hann var spurður hvort salan orki tvímælis á siðferðislegum grunni svaraði hann: „Ég held að að flest sem gert er í tengslum við þessi mál orki tvímælis.“
Hann sagði að fyrirtækið hafi sett sér nýjar reglur eftir þetta og muni ekki afgreiða fleiri rússnesk skip.