Birgitta segir undirskrift sína hafa verið falsaða á skjali sem afhent var yfirkjörstjórn í Reykjavík vegna framboðlista Reykjavíkur – betri borgar.
Hún greinir frá þessu á Facebook og segir að hún muni fá leiðbeiningar eftir fund yfirkjörstjórnar á morgun um hvernig skuli bregðast við.
Vísir greindi frá því í gær að Birgitta kannaðist ekkert við að hafa samþykkt að vera á lista Reykjavíkur – bestu borgarinnar, eða E-lista.
Birgitta kom af fjöllum þegar Vísir hafði samband við hana til að spyrja út í að hún væri í heiðurssæti á listanum, sagði þetta mjög skringilegt og ætlaði að hafa samband og láta taka sig af listanum.
„Ég sagðist alveg vera til í að vera svona í bakgrunni, veita þeim ráð og svoleiðis, eins og ég geri fyrir marga. En ég hef ekki skrifað upp það að vera á lista hjá þeim. Ég ætla ekki einu sinni að kjósa þá. Ég ætla að kjósa Pírata í þetta sinn,“ sagði hún.
Í frétt RÚV sagði Eva Bryndís Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, að kjörstjórn væri með undirritaða yfirlýsingu frá Birgittu.
Þá sagði Eva að búið væri að úrskurða framboð E-listans gilt og listinn væri því ekki ógildur. Ef undirskriftin væri fölsuð væri það mál útaf fyrir sig